Fara í efni

HEIÐURSMERKI HRÓSHÓPSINS

Sannast sagna hafði ég gaman af - og þótti heiður af því - að taka á móti heiðursmerki Hróshópsins sem kemur fram í nafni Búsáhaldabyltingarinnar og hrósar fyrir það sem hópurinn telur vel gert. Í stífum norðannæðingi fyrir framan Stjórnarráðið í gær, rétt fyrir ríkisstjórnarfund, var nælt í mig merki og mér færður blómvöndur. Tilefnið var að sýna samstöðu gegn því að Ísland verði selt „fyrir stundargróða". Stundum hafa mér hlotanst viðurkeningar en heiðursmerki Hróshóps Búsáhaldarbyltingarinnar þótti mér einna vænst um. Ávarp fylgir hér með en það var lesið upp í hífandi rokinu við Stjórnarrráðið....

Ögmundur Jónasson, heiðraður 29. nóvember, 2011 við Stjórnarráð Íslands.

Kæri Ögmundur, það er með mikilli ánægju að við í Hróshópnum, skulum fá hér tækifæri að veita þér heiðursorðu Búsáhaldabyltingarinnar fyrir það að segja nei við sölu Grímstaða á fjöllum til erlendra aðila. Við teljum að þarna hafi hurð skollið nærri hælum og það fordæmi gefið sem ekki hefði verið hægt að vinda ofan af.

Við trúum því einfaldlega ekki að það þurfi að selja Ísland, til þess að geta lifað á Íslandi. Landið okkar er það eina sem við eigum, mann fram af manni í gegnum aldirnar. Við höfum lært að nýta það og lifa þannig af því en um leið og við förum að selja landið okkar fyrir stundargróða, þá erum við á hættulegri braut. Við erum öll hér sammála um að landið og auðlindir þess eigi skýlaust að vera í eigu þjóðarinnar en ekki ganga kaupum og sölum á erlendum markaði.

Sem betur fer varst þú til staðar og stóðst gegn þessari glæfralegu jarðasölu og fórst að landslögum.

Okkur er ljóst að þú hafir þurft að búa við mikinn þrýsting um að samþykkja þessa stærstu jarðasölu á Íslandi á síðari tímum. Okkur er einnig ljóst að þú hefur þurft að sitja undir stöðugum köguryrðum og svívirðingum, sérstaklega frá ráðherrum og þingmönnum Samfylkingarinnar, samstarfsfólki þínu í núverandi ríkisstjórn. Hafi þeir skömm af framkomu sinni svo lengi sem Íslandssaga verður sögð.

Það er því miður að verða sjaldgæft að ráðherra taki hagsmundi almennings fram yfir hag fjármagnseigenda, en það gerðir þú, Ögmundur Jónasson, og því hefur Hróshópurinn einróma ákveðið að sæma þig orðu Hróshópsins, Heiðursorðu Búsáhaldabyltingarinnar.

Hafðu kæra þökk okkar allra hér og fjölmargra annarra landsmanna sem er létt, að ekki sé hafin útsala á Íslandi til erlendra peningamanna.

Heill þér Ögmundur Jónasson,

Fyrir hönd Hróshópsins,

Ólafur Sigurðsson



Sjá Svipan.is: http://www.svipan.is/?p=27294