Fara í efni

HASLA könnun kynnt

Í gær var kynnt könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Hagrannsóknastofnun launafólks í almannaþjónustu (HASLA). Að Hasla standa BHM, BSRB, Kennarasamband Íslands og Samband Íslenskra bankamanna. þessi samtök hafa komið sér saman um að vinna að ýmsum hagrannsóknum sem varða hag launafólks. Þetta er fyrsta sameiginlega verkefnið sem Hasla vinnur að. Margar mjög athyglisverðar upplýsingar koma fram í könnuninni. Í ljós kemur að mikill kynbundinn launamunur er hjá hinu opinbera, launaleynd er umtalsverð en að mínu mati þrífst hvers kyns misrétti einmitt í skjóli hennar. Þá er athyglisvert að yfirgnæfandi fjöldi (milli 92-98%) telur hugmyndir ríkisstjórnarinnar frá í vor um heimild til að segja fólki skýringarlaust upp störfum með öllu óásættanlegar. Athygli vekur hve símenntun er orðin mikil á vinnustöðum og kemur fram að frumkvæðið kemur iðulega frá starfsmönnum og stéttarfélögum. Nánar er hægt að kynna sér efni skýrslunnar hér.
Á myndinni er Kristjana Stella Blöndal að kynna könnun Félagsvísindastofnunar.