Fara í efni

HÁSKÓLASTÖÐUR TIL SÖLU?


Lögmannsstofan LOGOS heldur um þessar mundir upp á 100 ára afmæli sitt. fram hefur komið í fréttum að af þessu tilefni hafi verið undirritaður samningur á milli fyrirtækisins og Háskóla Íslands um að hið fyrrnefnda muni "kosta" stöðu lektors við lagadeild Háskóla Íslands næstu þrjú árin.

Í Morgunblaðinu í gær er vísað í fréttatilkynningu þar sem haft er eftir Páli Hreinssyni, forseta lagadeildar HÍ, samningurinn endurspegli traustið sem elsta og ein stærsta lögmannsskrifstofa landsins beri til deildarinnar. "Þetta metnaðarfulla framtak efli bæði deildina sjálfa og lögfræðilegar rannsóknir á íslenskum rétti. Samningurinn sé auk þess í samræmi við þá stefnu deildarinnar að leggja aukna áherslu á tengsl við atvinnulífið…"

Þetta er ekki fyrsta háskólastaðan sem fyrirtæki kaupir við Háskóla Íslands. Þetta er einfaldlega sú nýjasta og í samræmi við stefnu háskólans. Með þessari stefnu er háskólinn smám saman að breyta um eðli, hættir að vera sjálfstæð opinber stofnun en verður í síauknum mæli háð fjármagnseigendum, hinum nýju valdhöfum Íslands, sem á sviði háskólamenntunar sem á öðrum sviðum samfélagsins, móta stefnu og áherslur.

Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að LOGOS sé ágætt og heiðvirt fyrirtæki. Það hlýtur að verða fyrirtækinu álitsauki að "eiga" kennara við Háskóla Íslands. Athygli vekur hins vegar að forseti lagadeildar HÍ skuli snúa dæminu við: Það hljóti að vera lagadeild Háskóla Íslands til álitsauka að Logos skuli láta svo lítið að stíga þetta skref.

Spurningin er svo þessi: Hvar dregur Háskóli Íslands línurnar? Væru allar lögmannstofur landsins velkomnar inn fyrir dyr Háskóla Íslands, eða aðeins þær elstu og stærstu? Hve margar stöður eru nú kostaðar af fyrirtækjum við Háskóla Íslands? Þetta þarf að upplýsa og í þjóðfélaginu þarf að fara fram umræða um hvað fólk vill í þessum efnum. Þjóðfélag okkar hefur verið að taka miklum breytingum á undanförnum árum. Lýðræðið hefur þokað fyrir peningavaldi – auðvaldi – sem gerist stöðugt fyrirferðarmeira á öllum sviðum þjóðlífsins. Fánar fyrirtækja blakta við Listasafn Íslands, Þjóðminjasafnið og peningamenn seilast eftir áhrifum í heilbrigðisgeira, í skólakerfi og á sviði vísinda og mennta. Að sjálfsögðu er mikilvægt að atvinnulífið sýni vísindum og rannsóknum áhuga. Það gerir atvinnulífið hins vegar á sínum forsendum, sem eðli máls samkvæmt eru hagsmunatengdar.

Spurningin snýst um verkaskiptingu á milli fyrirtækja og hins opinbera og þar með um áherslur, áhrif og vald. Fram til þessa hafa menn lagt mikið upp úr sjálfstæði Háskóla Íslands. Er sá tími liðinn að slík hugsun sé í öndvegi höfð?