HÁRRÉTT HJÁ ÞORLEIFI
17.08.2009
Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG í Reykjavík, stendur vaktina fyrir almenning gagnvart ásælni erlendra kapítalista sem eru byrjaðir að sölsa undir sig orkugeirann á Íslandi. Nú er það Magma Energy sem á að bjóða inn í Hitaveitu Suðurnesja.
Magma á að eignast 49% á móti 51% Geysis Green. Það gerir 100%.
Í útvarpsviðtali í morgun sagði Þorleifur Gunnlaugsson að hvarvetna í heiminum þar sem orkugeirinn hefði verið einkavæddur hefði það leitt til fákeppni og hækkaðs orkuðverðs. Þetta er hárrétt. Hvers vegna í ósköpunum á þá að selja orkufyrirtækin frá okkur og það á gjafaprís? Var það vegna þess að reynslan af því að færa bankana í hendur einkaðilum hafi verið svo góð? Svo gott að láta þá í hendur kjölfestufjárfesta - muniði? Standa lög til þessa? Ef svo er þá þarf að breyta lögum sagði Þorleifur Gunnlaugsson.
Gott Þorleifur - ég er í þínu liði. Ég held að þjóðin sé nánast öll í þínu liði. Það þarf að stöðva þetta rugl. Ég nota það orð af kurteisisástæðum.
Þorleifur á RÚV:
http://dagskra.ruv.is/ras2/4420309/2009/08/17/0/
Í Sjónvarpsfréttum í kvöld kom svo fram formaður Orkuveitu Reykjavíkur, sem stendur að sölunni, Guðlaugur G. Sverrisson, og sagði að ekki væri salan vegna fjárskorts heldur vegna þess að "ljúka yrði málinu." Ekki er þetta traustvekjandi málflutningur.
Mikilvægt er að Reykvíkingar fylki sér nú um baráttu VG í Reykjajvík fyrir hagsmunum samfélagsins sem í þessu tilviki er þjóðin öll.