Fara í efni

HANN NJÓTI SANNMÆLIS!

Jóhann Ársælsson 2
Jóhann Ársælsson 2
„Það á ekki að vinna gegn starfsmöguleikum fyrrverandi þingmanna að þeir hafi setið á Alþingi. En það er alveg ljóst að Jóhann Ársælsson hefði aldrei verið skipaður stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs ef hann hefði ekki verið í Samfylkingunni og vinur ráðherrans. Flokksræðið og klíkuræðið er að ná sér aftur á strik"
Þetta segir í leiðara DV í dag. Í leiðaranum er fjallað um góða fagfólkið, annars vegar og slæma pólitíska, fólkið hins vegar. Seinni hópurinn er á leiðinni inn aftur segir leiðarahöfundur og vísar síðan í dæmi um spillingarmátt stjórnmálanna.

Svona alhæfingartal er álíka rangt og afvegaleiðandi  og þegar kynin eru dregin í dilka og okkur sagt að kreppan hafi verið körlum að kenna en ekki konum. Spillingin sé jú karllæg!

Auðvitað verður að dæma hvern og einn einstakling að verðleikum, hvort sem hann hefur tekið þátt í stjórnmálum eða ekki, hvort sem hann er karl eða kona og hvort sem hann hefur próf eða er próflaus.

Við horfðum á íslenskt efnahagslíf hrynja undir handleiðslu hámenntaðs fagfólks í fjárglæfrum, karla og kvenna. Eflaust fagfólk á því sviði í fremstu röð. En það er ekki þar með sagt að allir menntaðir einstaklingar sem komu að stjórn banka og fjármálastofnana hafi rækt störf sín illa eða verið glæfrafólk. Hér þarf að láta hvern og einn njóta sannmælis, verða dæmdur eða dæmd af verkum sínum en ekki meintum hópi sem honum eða henni er ætlað að tilheyra.

„Það á ekki að vinna gegn starfsmöguleikum fyrrverandi þingmanna...", segir DV undir mynd af nýskipuðum stjórnarformanni Íbúðalánasjóðs, Jóhanni Ársælssyni.  Látið er fylgja syndaregistur stjórnmálanna. Þarna er mótsögn í verki.

Af þessu tilefni langar mig að segja tvennt. Það er ekki óeðlilegt að ráðherra með lýðræðislegt umboð skipi stjórnarformann í félagslegum sjóði sem rímar við þau viðhorf sem stjórnvöld vilja í heiðri hafa. Allt öðru máli gegnir þegar ráðið er til almennra embættisstarfa í stjórnsýslunni. Í öðru lagi langar mig til að leggja í umræðupúkkið reynslu mína af störfum  Jóhanns  Ársælssonar.  Að mínu mati er hann einhver allra vandaðasti  og faglegasti alþingismaður sem ég hef kynnst á Alþingi. Ég fylgdist með störfum hans þar áður en ég kom sjálfur á þing og eftir að ég tók þar sæti og varð aldrei var við annað en réttsýni og fagmannleg vinnubrögð af hans hálfu; reyndar svo mjög að ég tók sérstaklega eftir því. Þess vegna þessar línur mínar nú.

Fram hefur komið að fyrrverandi formaður Íbúðalánasjóðs, Katrín Ólafsdóttir, hefur beðist lausnar eftir farsælt starf en hún er að takst á hendur önnur verkefni. Jóhann Ársælsson sem sæti hefur átt í stjórninni tekur því við formennsku. Ég óska okkur til hamingju með að fá hann sem stjórnarformann í þeirri mikilvægu stofnun sem Íbúðalánasjóður er.