Fara í efni

HAMINGJUÓSKIR OG ÞAKKIR TIL ÓMARS

Á degi íslenskrar náttúru óskum við Ómari Ragnarssyni til hamingju með afmælið – áttræðisafmælið. Það er við hæfi!

Ómari Ragnarssyni kynntist ég sam samstarfsmanni á fréttastofu Sjónvarps þegar við störfuðum þar saman í áratug. Skemmtilegri, kraftmeiri, og réttsýnni manni er leitun að.

Ómar hefur, og hafði einnig á þessum tíma, ríkar skoðanir. Honum var oft mikið niðri fyrir, en alltaf var hann málefnalegur og aldrei heyrði ég hann halla orði á nokkurn mann á meiðandi hátt.

Umhyggju hans fyrir íslenskri náttúru er viðbrugðið enda engin tilviljun að afmælisdagur hans var valinn sem dagur íslenskrar náttúru. Það var vel til fundið.

Og það var vel til fundið af Sjónvarpinu að sýna í tilefni dagsins mynd um baráttu Ómars til verndar Kárahnjúkasvæðinu.

Barátta Ómars Ragnarssonar hefur skilað árangri. Það er tvímæalaust. Hann hefur gert meira en flestir menn til að vekja okkur til vitundar um mikilvægi náttúruverndar.

Ísland, landið og þjóðin, standa í þakkarskuld við hann.

Þakkir til þín Ómar og til hamingju með afmælið!