Fara í efni

HAMFARIR OG MÁTTUR VELVILJANS

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.02.23.
Margt má læra af sögunni og er sumt til eftirbreytni.
Dæmi um mann sem segist vilja læra af sögunni til góðs er David L. Philips, áhrifamaður um mótun bandarískrar utanríkisstefnu og jafnframt fræðimaður sem hefur sérhæft sig í friðarrannsóknum, vill með öðrum orðum vera talsmaður friðarins.
Í grein sem hann kallar Jarðskjálftastjórnmál vísar hann til jarðskjálftanna í Tyrklandi og spyr hvort þær miklu hörmungar sem þeir hafi leitt af sér kunni að opna nýjar dyr til samninga og sátta. Þar horfir hann til langvarandi ofsókna á hendur Kúrdum, mannréttindabrota og stríðsátaka, ekki aðeins í Tyrklandi heldur einnig í Sýrlandi, Írak og Íran. Kúrdabyggðirnar í Tyrklandi og Sýrlandi urðu, sem kunnugt er, verst úti í nýafstöðnum jarðskjálftum.
Og í því samhengi horfir Philips til sögunnar og rifjar það upp að árið 1996 hafi eina ferðina enn legið við að upp úr syði með Tyrkjum og Grikkjum. Tyrkneskt olíuflutningaskip hefði strandað við grískar eyjar rétt undan Tyrklandsströnd, eyjar sem Tyrkir gerðu tilkall til. Bæði ríkin sendu herlið á vettvang. Það tókst þó að koma í veg fyrir að ófriður brytist út en spenna var áfram mikil á milli ríkjanna.
En það breyttist árið 1999. Þá reið yfir gríðarlegur jarðskjálfti í Tyrklandi. Fyrstir til að rétta hjálparhönd voru Grikkir. Og viti menn fáeinum vikum síðar varð annar jarðskjálfti. Að þessu sinni í Aþenu og nú voru það Grikkir sem þurftu hjálpar við. Hana fengu þeir fyrst frá Tyrkjum. Við þetta breyttust samskipti þjóðanna - í það minnsta um sinn.
Þetta er jarðvegurinn sem Philips segir kjörinn til að sá í til friðar. Velviljinn geti þannig verið öflugt hreyfiafl til góðs, öfugt við drápstólin.
En það er hægara sagt en gert að leggja rækt við velviljann eftir að áróðursvélar hervelda hafa verið virkjaðar til að leggja allt út á versta veg hjá andstæðingnum, sjá helst aldrei á honum hvítan blett. Þvert á móti er ýtt undir tortryggni og óvild, jafnvel hatur.
Vinabæjartengsl, menningarsamskipti og samstarf á sviði mennta og vísinda eru hins vegar leiðir velviljans. Hver man ekki eftir Daniel Barenboim með sinfóníuhljómsveit ísraelskra og palestínskra ungmenna að skapa velvilja og vinatengsl.
Með þetta í huga má spyrja hvernig við viljum að ríki heims bregðist við síðustu morðárásum ísraelska hersins á Gaza? Ættum við sem styðjum málstað Palestínumanna að taka fagnandi tillögu sem fram kom af hálfu einhverra arabaríkja að senda Pelstínumönnum vopn þannig að þeir gætu svarað í sömu mynt?
Þeir sem tala máli friðarins eru sagðir barnalegir og huglausir. Barnalegir eins og Chamberlain, forsætisráðherrann breski, sem taldi sig geta samið við Hitler, og huglausir að þora ekki að berjast til síðasta manns fyrir réttlátan málstað. Spurning er hvort Chamberlain samlíkingin eigi rétt á sér, ég tel svo ekki vera, og hvað varðar hugleysið þá má efast um það hversu hugað það fólk er sem hvetur til vígaferla úr öruggri fjarlægð.
Og enn um Kúrdana. Eflaust eru þeir til sem telja að eina svarið sem dugi þeim til varnar sé að færa þeim afkastamikil vopn til manndrápa. Og hví ekki? Andstæðingar þeirra minntu á það að þeir væru enn við sama heygarðshornið því strax daginn eftir jarðskjálftana hélt tyrkneski herinn áfram vopnuðum árásum á Kúrda.
Yfirlýsing Abdullah Öcalans, leiðtoga Kúrda, sem barst úr fangaklefa hans vorið 2019, var ekki öllum Kúrdum að skapi, einhverjum þótti hún fela í sér eftirgjöf. Í stríði er eftirgjöf skiljanlega eitur í beinum þeirra sem hafa þurft að þola ofbeldi. Þá vilja menn setja traust sitt á stálin stinn. Þarna er vítahringurinn sem þarf að rjúfa.
Í orðsendingu Öcalans sagði meðal annars:
“Atburðir líðandi stundar minna á hve mikil þörf er á því að ná víðtækri og djúpri sátt í samfélaginu. Við þurfum á að halda lýðræðislegri nálgun við samninga þar sem í stað átaka á milli gagnstæðra póla er horft til þess vanda sem þarf að leysa. Við getum leyst úr vandamálum Tyrklands og jafnvel alls þessa heimshluta með mýktinni, það er að segja með vitsmunum okkar, samskiptum á milli stjórnmálafylkinga og menningarheima í stað valdbeitingar.“
Ekki er það huglaus maður sem svona mælir eftir að hafa leitt vopnaða andspyrnu gegn ofbeldi, misst nákomna í því stríði og hefur nú verið innilokaður í einangrunarfangelsi í nær aldarfjórðung. Ég er sannfærður um að afstaða hans er lykillinn að friði.
En hvað með önnur stríð, hvað með Úkraínu? Eins og vindarnir blása nú er ekki hlaupið að því að tala fyrir friði þar; að sest verði niður og ræðst við í stað þess að skera á öll samskipti með heitingum um að barist verði til síðasta manns.
Ég ætla nú samt að spyrja hvort það gæti verið ráð að rússneska þjóðin fengi að nýju aðild að Evrópuráðinu - það var búið til fyrir mannréttindin og almenning, ekki ríkin - íbúar Reykjavíkur tækju að nýju upp vinabæjartengsl við íbúana í Moskvu og að Íslendingar létu af stuðningi við stríðsreksturinn. Við gerðumst þess í stað málsvarar samræðu með það að markmiði að tryggja almenningi í Úkraínu frelsi og frið; töluðum fyrir því að látið yrði reyna á friðarviljann.
Að virkja velvildina er verðugt verkefni vopnlausrar þjóðar.