Fara í efni

Halldór taki sjálfan sig á orðinu

Formaður Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, flutti ræðu á Hólahátíð um síðustu helgi. Hann gerði samhjálp og samkennd að umræðuefni og lagði áherslu á að varðveita samheldni í samfélaginu. Þetta eru tónar sem ég kann vel að meta. Mín tillaga er sú að Halldór Ásgrímsson láti ekki hér við sitja, heldur máti hann nú gjörðir þeirra ríkisstjórna sem hann hefur átt aðild að síðan 1995 við þessar hugsjónir. Enginn maður er óskeikull en óþægilega þykir mér þó halla á réttlætiskvarðann þegar verk þessara ríkisstjórna eru metin. Misrétti hefur stóraukist í landinu og áhöld um hvort sama gildi ekki um spillingu, sem rakin verði til verka ríkisstjórnarinnar, markaðshyggjunni hefur verið brotinn farvegur inn í velferðarþjónustuna og hún þannig veikt og framlag ríkisstjórnarinnar á alþjóðavettvangi hefur ekki beinlínis verið í þeim anda sem boðaður var á Hólum; þar var af hálfu Halldórs Ásgrímssonar skírskotað mjög til trúarbragða og siðfræði. Ríkisstjórn Íslands kaus sem kunnugt er að fylgja heimsins herskáustu hernaðarhaukum, sem nú hafa orðið uppvísir að lygum og blekkingum án þess að orð hafi heyrst frá íslenska utanríkisráðherranum um það efni. Samkvæmt skoðanakönnunum var meirihluti íslensku þjóðarinnar andsnúinn hernaðarofbeldinu í Írak, enda hafa forsvarsmenn beggja stjórnarflokkanna haft á orði að gjörðir þeirra hafi ekki verið til vinsælda fallnar, með öðrum orðum, þær hafi verið andlýðræðislegar! Er þetta framganga sem líkleg er til að stuðla að samheldni þjóðarinnar?
Á Hólum gagnrýndi Halldór Ásgrímsson þá sem eru ósáttir við niðurstöðu um framkvæmdir við Kárahnjúka og halda áfram að beita sér gegn þeim og segir hann í því sambandi að “þegar lýðræðisleg niðurstaða er fengin er rétt að una henni og virða.” Nokkuð er til í þessu en svo sögunni sé rétt til haga haldið skal á það bent að einmitt þetta var kjarninn í deilunum um Kárahnjúka undir það síðasta: Að þjóðin fengi að segja sitt í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu. Gegn því lagðist ríkisstjórnin með Halldór Ásgrímsson innanborðs. Varðandi boðskapinn í ræðu Halldórs Ásgrímssonar vil ég að lokum segja þetta: Margt er þar prýðilegt en best af öllu væri ef hann tæki sjálfan sig á orðinu og breytti í samræmi við boðskap sinn. Það hefur hann því miður ekki gert við stjórn landsins á undanförnum árum. En viti á gott. Batnandi manni er best að lifa.