Fara í efni

Halldór staðfastur

Enginn getur neitað því að Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sýnir óbilandi staðfestu í Íraksmálinu. Ekkert fær honum þokað. Hann virðist að vísu svolítið feiminn að segja það upphátt að hann telji varla þörf á því að Öryggisráðið komi saman að nýju til að álykta um heimild fyrir Bandaríkjaher að ráðast á Írak. Nokkuð hafa yfirlýsingar hans um þetta efni verið misvísandi. Í hádegsifréttum RÚV í dag var svo að skilja að hann teldi þetta óljóst. En hitt er Halldór viss um og það er að Írakar eru brotlegir og að tíminn er alveg að renna út. Þarna er Halldór utanríkisráðherrann okkar algerlega á einu máli með George Bush Bandaríkjaforseta og hernaðarhaukunum í Washington. Hann er sammála þeim um að það hljóti að vera tímaspurmál hvenær stórárásin hefst á Írak verði Saddam Hussein ekki við öllum kröfum Bandaríkjastjórnar. Það er einmitt í þessu sem staðfesta Halldórs felst. Að fylgja George Bush og félögum að málum í einu og öllu.