Fara í efni

Hagsmunaaðili ráðleggur sér til hagsbóta

Á Nýsi hf starfa dugnaðarforkar. Þeir hafa verið iðnir við skýrslugerð og ráðgjöf, ekki síst fyrir sveitarfélögin í landinu. Nýsir ráðleggur þeim hvernig best sé að ráðstafa almannafé. Niðurstaðan er iðulega á þann veg að einkaframkvæmd sé eftirsóknarverð. Þar eru hins vegar ekki allir á einu máli og hefur komið fram í rannsóknum að einkaframkvæmd hefur yfirleitt reynst dýr kostur fyrir skattborgarann. Hins vegar hefur einkaframkvæmd þjónað hagsmunum fjárfesta sem fengið hafa opinbera starfsemi í sína umsjá. Og hverjir skyldu nú vera harðdrægastir á þessum markaði? Það er einmitt ráðgjafinn og einkaframkvæmdaraðilinn  Nýsir hf.

Í gær var sagt frá því að Nýsir hefði keypt Egilshöllina, íþróttamannvirkið í Grafarvogi.  Í gögnum frá fyrirtækinu kemur fram að það hefur nú fengið til einkaframkvæmdar fjöldann allan af opinberum stofnunum. Nýsir hf er eigandi og rekstraraðili fasteigna Iðnskólans í Hafnarfirði, Íþróttamiðstöðvarinnar Bjarkar, Lækjarskólans í Hafnarfirði og auk leikskóla í Hafnarfirði og Grindavík. Þá eru þeir meðeigendur að nýju heilsu – og sundmiðstöðinni Laugum sem sambyggð er Laugardalslaug Reykjavíkurborgar.

 Ástæða er til að óska Nýsi til hamingju með árangurinn. Því miður treysti ég mér ekki til að óska skattborgaranum til hamingju að sama skapi. Eitt sveitarfélag öðrum fremur hefur verið varfærnara í viðkiptum við markaðsfyrirtæki þegar einkaframkvæmdin er annars vegar. Þar er í forsvari íhaldmaðurinn Gunnar Birgisson. Skyldi það vera tilviljun? Reynsluheimur Gunnars Birgissonar er ekki aðeins pólitíkin heldur einnig verktakabransinn. Gunnar Birgisson hefur nefnilega um langt skeið rekið eigið verktakafyrirtæki. Hann er sagður slunginn bisnissmaður. Skyldi vera samhengi á milli bisnissklókinda þessa forseta bæjarstjórnar Kópavogs annars vegar og varfærni hans gagnvart einkavæðingarforminu hins vegar? Gæti verið að hann sé það klókur bisnissmaður að hann láti ekki plata sig? Allra síst ráðgjafafyrirtæki sem ráðleggja sjálfum sér til hagsbóta?

Hægt er að fræðast um Nýsi hf og starfsemi á heimasíðu fyrirtækisins http://www.nysir.is/ og hvernig þeir benda á ætlaða kosti einkaframkvæmdar í tillögum sínum að stefnumörkun Reykjavíkurborgar í byggingamálum framhaldsskóla, frá því í janúar 2003, sjá: http://www.shopping.is/sysl/stuffmyndir/st_75899_Framhaldsskolaskyrsla.pdf

Það er ekki slæm staða fyrir fyrirtæki að skrifa ráðgefandi skýrslur sem greiddar eru af hinu opinbera, sem um leið eru kortlagning á markaðstækifærum fyrir fyrirtækið og þar sem ráðgjöfin beinist m.a. að kostum þess að hið opinbera hefji viðskipti við ráðgjafann sjálfan. Nýlega var greint frá á þessari síðu, rannsóknarskýrslu UNISON-verkalýðsfélags starfsmanna í almannaþágu í Bretlandi, þar sem fram kom að einkaframkvæmd hefur reynst breskum skattborgum dýrkeypt. sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/ny-skyrsla-um-einkaframkvaemd-i-bretlandi-vaxandi-efasemdir