Fara í efni

HAFIÐ ÞÖKK HALLGRÍMUR OG ÚLFAR!


Mín jól voru Hallgrímsjól. Eða voru þau kannski Úlfarsjól? Það gæti verið. Úlfar Þormóðsson gerði Hallgrím Pétursson, hinn eina og sanna, sálmaskáldið frá 17. öld - höfund Passíusálma - upp á nýtt. Ekki sálmana. Höfundinn.
Það gerði hann í anda sagnaritara öndverðrar 21. aldar - jú og tíunda áratugar hinnar 20. Ég er ekki alls kostar ánægður með þessa sagnahefð sem orðið hefur ofan á: sögupersónur færðar í skáldsögubúning, en jafnframt settar innan gæsalappa  -  án heimildar. Yfirgengileg frekja. Allt gert samkvæmt ágiskun og meintu innsæi. Þannig varð til ævisaga Jónasar frá Hriflu, Einars Ben., Jóns Sigurðssonar og nú Hallgríms.
En hvað gerist? Eftir að Úlfar fór höndum um mig og Hallgrím, kynnti okkur, menn sem rúm 300 ár skilja að, þá er ég farinn að fletta upp í Guðbrandi Þorlákssyni biskupi á Hólum, 16. og 17. aldar afreks- manninum og Arngrími lærða, Brynjólfi Sveinssyni, Guðríði brottrændri og .....
Hvers vegna fletti ég upp? Allt eru þetta áhugaverðar persónur og  áhrifavaldar úr Íslandssögunni. Öll gamalkunn. En nánast aðeins sem ártöl. Jú, bíblíur. Öll þekkjum við Guðbrandsbiblíu.
Ég er búinn að fletta upp án afláts yfir hátíðarnar. Ekki vegna Hallgríms. Vegna Úlfars. Hann kveikti logann. Og eldana. Ég sagði í Þorláksmessupistli hér á síðu að ÚÞ væri góður sagnamaður, frábær penni ( sjá  https://www.ogmundur.is/is/greinar/limdur-vid-hallgrim )
 Nú segi ég: Fyrirgefðu Úlfar. Þú ert vissulega frábær penni. En það er snautleg lýsing á þínu verki. Þú hefur skilað af þér bókmenntaafreki! Öllu á dýptina; heimspekina, sögulega innsýn, manneskjuna - nú og fyrr. Haf þökk fyrir.