Fara í efni

HÆSTIRÉTTUR OG KONFEKTKASSINN Í VATNSMÝRINNI

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 20/21.08.16.
Í réttarríki hlítum við niðurstöðum dómstóla. Í þeim skilningi deilum við ekki við dómarann eins og stundum er sagt. Það er ekki þar með sagt að við séum sátt við alla uppkveðna dóma. Og þegar það gerist að við verðum svo ósátt við niðurstöður dómstólanna, að okkur finnast þeir beinlínis verða viðskila við réttlætið, þá er gott og hollt að láta frá sér heyra.

Þegar ég las nýlegan úrskurð Hæstaréttar í flugvallarmálinu svokallaða, var mér öllum lokið. Undirréttur hafði áður dæmt Reykjavíkurborg í vil í deilum við ríkið um framtíð Reykjavíkurflugvallar, á grundvelli samkomulags sem gert hafið verið á milli aðila, í byrjun þessa kjörtímabils. Hæstarétti þótti hins vegar ekki nóg að gert og dró samkomulag, sem ég hafði áður undirritað sem innanríkisráðherra í lok síðasta kjörtímabils, inn í rökstuðning fyrir því að hafa bæri réttinn af núverandi innanríkisráðherra til að standa vörð um flugvöll í Vatnsmýrinni.

Þetta var furðuleg niðurstaða. Samningurinn, sem hér um ræðir, var undirritaður vorið 2013 og bar yfirskriftina, „Samkomulag um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli".  Skýrar verða samningsmarkmið varla skilgreind. Enda var þetta andi samkomulagsins og velkist enginn í vafa um þann anda sem kynnir sér efni þess.

Fljótlega eftir að þetta samkomulag um bætta aðstöðu fyrir innanlandsflugið var undirritað, kom hins vegar í ljós að Reykavíkurborg ætlaði ekki að standa við sinn hlut, heldur aðeins ná til sín yfirráðum yfir byggingarlandi. Gekk nú á með yfirlýsingum af hálfu borgarinnar um að senn væru dagar flugsins i Reykjavík taldir!

Leggist menn í fjölmiðlarýni frá þessum tíma kemur glögglega í ljós hver viðbrögðin voru við vanefndum borgarinnar. Tíu dögum eftir undirritun birti ég í nafni embættis míns grein í Morgunblaðinu sem hét „Enginn flugvöllur - ekkert samkomulag." Greinar sama efnis með ítarlegum rökstuðningi fylgdu í kjölfarið. Aldrei komu minnstu viðbrögð frá Ráðhúsinu, sem nú tók að leita hófanna um nýtt samkomulag í stað þessa samnings sem að engu var orðinn. Segir ekki frekar af honum þar til hann dúkkar nú upp í Hæstarétti!

Mér sýnast dómarar í Hæstarétti hafa gert nákvæmlega það sem ég leyfði mér á sínum tíma að gagnrýna fulltrúa Reykjavíkurborgar fyrir, nefnilega að líta á samninga á sama hátt og menn nálgast konfektkassa, seilast eftir þeim bitum sem hugurinn girnist en láta aðra liggja. Þetta getur varla verið réttmætt, annaðhvort eru samningar virtir í heild sinni eða þeir eru það ekki og til þess ber Hæstarétti að sjálfsögðu að horfa.

Af hálfu Reykjavíkurborgar var aldrei látið svo lítið að svara röksemdum innanríkisráðherra um brigð á umræddum samningi.

En gæti verið að sjá megi ljós í myrkrinu? Ég heyrði ekki betur en að borgarstjóri segði í vikunni að  leita þyrfti eftir þjóðarsamstöðu um framtíð flugvallarins - að vísu nefndi hann þar Hvassahraun en ekki Vatnsmýri. En þjóðarsamstaða þýðir væntanlega að þjóðinni allri komi málið við. Láti gott á vita.