Fara í efni

HÆKKUN ÍBÚÐALÁNA FAGNAÐ

Í gær var skýrt frá því að hámarkslán hjá Íbúðalánasjóði yrðu hækkuð í 18 milljónir króna. Það er varfærin hækkun – ekki síst ef menn ætla að halda sig við loforð um að veita 90% húsnæðislán. Ég hef áður vakið máls á þeirri staðreynd að 90% loforðið hafi í reynd verið staðlausir stafir því jafnan hafi gleymst að geta hámarksins – þaksins sem sett var á lánin.  Þakið hefur alltaf verið allt of lágt og í engu samræmi við markaðsverð húsnæðis, ekki síst á suðvesturhorninu. Fólk hafi gleymt að spyrja hinnar augljósu spurningar: 90% af hverju? (sjá t.d.umfjöllun HÉR).
Jón Kristjánsson, félagsmálaráðherra, sagði í kvöldfréttum að Íbúðalánasjóður væri einfaldlega að laga sig að markaðsaðstæðum með þessari hækkun. Það er rétt.
Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði einnig í fréttum í kvöld að þessi hækkun skipti fyrst og fremst máli í þeim byggðarlögum þar sem bankarnir væru tregir að lána fé til íbúðakaupa, væntanlega vegna þess að veð væru þar ótrygg. Sagði fjármálaráðherra að vart væri á þau byggðarlög leggjandi að meina fólki þar um lánsfjármagn til íbúðakaupa. Undir þetta skal heilshugar tekið. Skyldi þetta vera vísbending um að fjármálaráðherra ætli ekki að láta undan þrýstingi frá bönkum og fjármálafyrirtækjum um að leggja Íbúðalánsjóð niður eða nokkuð sem ekki er betra að gera hann að svokölluðum heildsölubanka, sem fjármálastofnanir geta síðan makað krókinn á? Ef slíkt væri uppi á teningnum væri það endanleg sönnun þess að ríkisstjórnin horfði fyrst til hagsmuna fjármálafyrirtækja og síðan til hagsmuna almennings.
Úrtöluhagfræðingarnir
, sem nú streyma fram á sjónvarpsskjáinn eftir að skýrt var frá hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs, verða að svara því hvort þeir telji til góðs að fólk sem nú er að koma út á íbúðamarkaðinn – og á ekki annarra kosta völ en leita eftir lánsfjármagni til íbúðakaupa – verði þvingað inn í banka til að taka lán á hærri vöxtum en bjóðast hjá íbúðalánasjóði? Bankalánin teygja sig nú yfir 5% og það í 5% verðbólgu. Þetta eru okurkjör sem enginn fær risið undir. Íbúðalánum, sem ætlað er til kaupa á íbúðahúsnæði, má ekki rugla saman við hver önnur neyslulán og eiga ekki að lúta sömu lögmálum. Íbúðalán eru lán sem fólk verður að taka og á ekki annarra kosta völ! Við hljótum að fagna því þegar húsnæðiskjör almennings eru rýmkuð.