Fara í efni

GULLNÁMA HÍ OPNUÐ Á NÝ OG RAUÐI KROSSINN EFLIR GÓÐGERÐARSTARF


Allt er nú smám saman að komast í samt lag. Smit mælast fá og þótt víðast hvar eigi  enn að spritta sig eru menn tilbúnir að taka áhættu ef lífið þykir liggja við. Og það þykir þeim hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, læknadeildinni og hvað þær nú heita deildir Háskóla Íslands sem reka spilavítin í Reykjavík.
Sem kunnugt er var spilasölum og spilakössum Háskóla Íslands, Rauða krossins, SÁÁ og Landsbjargar lokað tímabundið að kröfu sóttvarnaryfirvalda vegna veirufaraldursins.

Samkvæmt skoðaðanakönnunum vildi yfirgnæfandi meirihluti landsmanna að ekki yrði opnað aftur. Samtök áhugafólks um spilafíkn óskaði eftir viðræðum við ríkisstjórinina um þetta en sú beiðni var hundsuð.

Og nú hafa þessar þjóðþrifastofnanir og samtök opnað á ný á gripdeildir sínar ofan í vösum spilafíkla. Mikið þótti liggja við svo áfram mætti “láta gott af sér leiða”.

Myndina hér að ofan tók ég af glugga Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands á Hlemmi í dag. Þar tifar vélin, vinningarnir hækka á hverri sekúndu um nokkrar krónur. Gullnáman, sem allir geta freistað gæfunnar í, var í rúmum 13 milljónum þegar ég átti þarna leið um í dag.

Spennan var einnig í hámarki á Lækjartorgi í spilavíti guðfræðideildarinnar. Háspenna held ég hún heiti.

En þótt leyfi væri gefið til að spila var mælst til þess að menn sprittuðu sig.
Gott til þess að vita að menn vilji sýna ábyrgð.