Fara í efni

GUÐLAUGUR ÞÓR AUGLÝSIR


Í gær birtist auglýsing í Morgunblaðinu frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Auglýst er starf forstjóra „sjúkratryggingastofnunar." Þessi stofnun er ekki til. Kannski er þetta eins konar afsökunarbeiðni því í auglýsingunni er okkur sagt að þar sem Alþingi hafi ekki samþykkt lög um þessa stofnun verði að framlengja umsóknartímann til 15. september og er GÞÞ greinilega að vonast til að þá hafi honum tekist að fá samþykkt á Alþingi lög um þessa umdeildu stofnun.

GÞÞ fékk þau Geir H Haarde og Ingibjörgu S. Gísladóttur til að samþykkja hráan lagaramma á síðustu metrum þingsins á aðventunni. Samkvæmt þeirri lagastoð gat hann ráðið stjórnarformann. Það þótti mörgum sérkennilegt enda stofnun stjórnarformannsins ekki til. GÞÞ sagðist myndi láta þingið fá drög að vandaðri löggjöf um stofnunina fyrir vorið. Þessum drögum henti hann síðan inn nokkrum dögum fyrir þinglok og dagaði þau uppi - nokkuð sem áhugafólki um vönduð vinnubrögð þurfti ekki að koma á óvart. Þetta skýrir auglýsingiuna sem skattborgarinn splæsti í á hálfsíðu Moggans í gær þar sem okkur var sagt að Guðlaugur Þór þyrfti að fresta ráðningunni. Í auglýsingu hans er  lögð sérstök áhersla á „leiðtoga og samskiptahæfileika" væntanlegs forstjóra.

Nú gæti svo farið að GÞÞ þyrfti að fresta enn lengur ráðningu í hina nýju sjúkrasölustofnun en auglýsingin segir til um. Sá möguleiki er nefnilega til í málinu að frumvarp ráðherrans verði ekki samþykkt á haustþingi í byrjun september. Ef svo færi yrði það að sjálfsögðu ekki vegna skorts á samskiptahæfileikum ráðherrans heldur tregðu okkar í stjórnarandstöðunni sem erum ófær um að koma auga á þá kosti.