Fara í efni

GUÐINN HEITIR GRÆÐGI


Eftirfarandi er viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við ÖJ í Morgunblaðinu 20.09.08.:

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri-grænna og formaður BSRB, hefur mjög látið til sín taka á hinu pólitíska sviði á undanförnum vikum og hvergi dregið af sér í gagnrýni á ný sjúkratryggingalög heilbrigðisráðherra sem hann segir skref í átt að einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.

Af hverju er þér svo illa við orð eins og einkavæðing og markaðshyggja, hefur ekki gengið ágætlega að láta einkaframtakið og markaðinn sjá um hlutina?

„Það eru ekki hugtökin sem angra mig heldur stefnan og hvað hún gerir því þjóðfélagi sem við höfum byggt hér upp með góðum árangri. Við erum eljusöm þjóð með merka sögu. Hér er fjöldi stórra og smárra fyrirtækja sem eru í ágætum rekstri. Við erum vel menntuð, eigum gríðarlegar auðlindir. En við höfum verið að fara afturábak undanfarin ár vegna þess að vírus frjálshyggjunnar hefur hreiðrað svo rækilega um sig. Þeir sem ráða eru hættir að trúa á heilbrigða skynsemi, hættir að trúa á skapandi atvinnurekstur. Nú er það bara braskið sem blívur. Guðinn heitir græðgi og þeir sem á hann trúa eru í herkví trúarbragða og komast hvergi. Óheft markaðshyggja hefur umbreytt íslensku samfélagi í spilavíti. Við blasir þjóðfélag aukinnar misskiptingar, sennilega meiri en dæmi eru um áður í Íslandssögunni. Þegar menn tala um það í fullri alvöru að fara með heilbrigðisþjónustuna og orkukerfið, innviði samfélagsins, út á þetta sama markaðstorg þar sem mönnum hefur mistekist jafn herfilega og dæmin sanna þá hlýtur maður að vara við því. Ég vil að sjálfsögðu blandað hagkerfi þar sem markaðurinn spreytir sig og samkeppni er þar sem það á við, en samfélagsþjónustunni, innviðum samfélagsins, vil ég halda hjá samfélaginu."

Pólitískt skop

Hörð gagnrýni þín á heilbrigðisráðherra hefur vakið mikla athygli. Fórstu ekki offari þegar þú settir saman mynd af honum og Gaddafi á heimasíðu þinni?

„Það kom mér á óvart hversu mjög það fór fyrir brjóstið á sumum að sjá Guðlaug Þór skeytt saman við Sarkozy Frakklandsforseta á góðri stundu suður í Líbýu. Þarna var að sjálfsögðu um að ræða pólitískt skop. Menn sem ég met mikils í Sjálfstæðisflokknum hafa komið til mín og beðist afsökunar á húmorsleysi í sínum flokki. Hins vegar tengist þessi umrædda mynd grafalvarlegu máli sem er framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins. Ég skil ekki af hverju menn eru hræddir við að taka upplýsta umræðu um það efni. Heilbrigðiskerfið þarf á því að halda að vera í stöðugri endurnýjun og endursköpun. Um það eiga að leika ferskir vindar. Við í verkalýðshreyfingunni höfum stuðlað að því að koma upplýsingum, fróðleik og reynslu annarra þjóða inn í þessa umræðu og þá rísa menn upp til handa og fóta og reyna að sporna gegn því. Ég spyr: Við hvað eru menn hræddir?
Ég óttast að í stað fjölbreytni og endursköpunar og endurnýjunar þá muni markaðsvæðing heilbrigðiskerfisins færa okkur inn í einsleitara kerfi aukinnar misskiptingar. Við munum ekki sitja uppi með fjölbreytnina sem gumað er af heldur einokunarfábreytni sem kemur skattborgurunum í koll. Það er umyrðalaust ætlast til að við setjum skattpeningana okkar í rándýrar einkalausnir sem hagnast fjárfestum sem nú gína yfir þessum rekstri."

Hvaða fyrirtæki myndir þú vilja endurþjóðnýta sem hafa verið einkavædd?

„Almennt er ég þeirrar skoðunar að samfélagið eigi að sjá um að samfélagsþjónustan sé góð, stoðkerfið sem svo er nefnt, skólar, heilbrigðis- og félagsþjónustan, samgöngur, löggæsla, rafmagn og vatn; að öðru leyti eigi að virkja sköpunarkraft einstaklinganna. Hins vegar finnst mér að við tilteknar aðstæður geti samfélagið þurft að grípa inn í þar sem fyrirtæki hafa ekki áhuga eða burði til að takast á við þjóðþrifamál. Við eigum ekki að hugsa svarið í stofnunum eða fyrirtækjum heldur í starfsemi. Tökum dæmi. Það kemur á daginn að við höfum fjárfest í höfnum víðs vegar um land. Það hafa verið færðar sönnur á það að þungaflutningar á vegum eru óhagkvæmari og dýrari en flutningar á sjó. Ef einkaaðilar koma ekki inn í sjóflutninga þá finnst mér sjálfsagt að ríkið skoði möguleikana á slíku. Hvort það yrði gert með því að endurvekja Ríkisskip, bjóða þessa starfsemi út eða örva einkaaðila til slíks, ætla ég ekki að segja til um fyrirfram en samfélagið á að sjá til þess að þessi starfsemi sé stunduð.
Tökum annað dæmi. Markaðsverð á áburði til landbúnaðar er að tvöfaldast og fyrirsjáanlegt að á næstu mánuðum verði enn frekari hækkanir vegna aukinnar eftirspurnar og stöðunnar í heiminum. Þurfum við ekki í ljósi þess að hugsa út í það hvort við eigum að endurræsa áburðarverksmiðju hér á landi, hvort sem ríkið gerði það sjálft eða aðrir aðilar? Samfélagið á að hugsa á þessum nótum."

Á að þjóðnýta bankana?

„Mér finnst ekki vera sáluhjálparatriði að bankar séu í eigu hins opinbera og ég legg ekki að jöfnu bankana annars vegar og heilbrigðisþjónustuna hins vegar. Ég og mín skoðanasystkini vöruðum hins vegar við því að fjármálakerfið yrði einkavætt á einu bretti í okkar litla hagkerfi vegna þess að sú hætta blasti við að þeir sem hafa eignarhald á atvinnustarfseminni í landinu myndu jafnframt eignast bankana. Þeir sætu beggja vegna borðs og ættu fyrirtækin sem síðan leituðu til sama aðila um lánsfjármagn. Þetta varð þróunin. Ég held líka að ríkisstjórnin hafi á sínum tíma gert mikil mistök í að einkavæða fjármálakerfið án þess að skapa því lög og reglur sem koma í veg fyrir að undir sama þaki séu viðskiptastarfsemi og fjárfestingastarfsemi. Það á að vera eitt fyrsta verk okkar á þingi að samþykkja lög um aðgreiningu á viðskiptastarfsemi bankanna annars vegar og fjármálastarfsemi þeirra hins vegar, eins og ég hef lagt til frá árinu 2003."

Hugsunarháttur græðginnar

Nú er þjóðin að upplifa mikla efnahagserfiðleika en var ekki alltaf ljóst að verið væri að fara of geyst?

„Ekki var öllum það ljóst. Þeir sem haldið hafa um stjórnartaumana á undanförnum árum sáu ekki hvað framundan var og því miður hafa fjölmiðlar um of manað upp ranghugmyndir með því að mæra fjárfestingar spekúlanta út í hið óendanlega. Það var talað af geysilegri lotningu um útrásarvíkingana sem voru að kaupa og yfirtaka stórfyrirtæki víðs vegar um heiminn á lántökum. Núna þegar aðgengi að lánum á heimsmarkaði er ekki það sama og áður var þá blasir við að spilaborgin getur hrunið. Við höldum niðri í okkur andanum í von um að svo verði ekki.
Ég orðaði einhvern tíma þá hugsun að ef ég stæði frammi fyrir því að senda annaðhvort þotuliðið úr landi eða íslenska jafnaðarmannasamfélagið þá myndi ég frekar vilja að þotumannskapurinn hefði sig á brott. Þá fékk ég það til baka að ég vildi alla bankastarfsemi úr landi. Það er af og frá. Ég vildi úr landi þann hugsunarhátt græðginnar sem leitt hefur til geigvænlegrar misskiptingar í samfélaginu. Ég er fylgismaður þess að við rekum hér öfluga, trausta og góða viðskiptabanka og er alls ekki andvígur því að til séu fjárfestingasjóðir. En ég vil hafa skýr greinarmörk þarna á milli. Eins og stendur eru íslensku bankarnir að langstærstum hluta fjárfestingarsjóðir, sem róa lífróður. Þeir geta ekki sinnt viðskiptabankahlutverki sínu og soga til sín allan gjaldeyri til að standa skil á eigin skuldum. Staðan í banka- og gjaldeyrismálum er svo myrk í augnablikinu, þokan mikil, sögusagnirnar margar. Það þarf að rannsaka gjaldeyrisviðskiptin þegar í stað. Íslenskir fjármálamenn þurfa að fá tækifæri til að afsanna þann áburð að þeir séu að vinna að veikingu krónunnar. "

NATÓ aldrei hættulegra

Verða Vinstri-grænir ekki að viðurkenna að það sé gott mál að vera í NATÓ og varnarsamstarf sé nauðsynlegt?

„Ég held að NATÓ hafi aldrei verið hættulegri félagsskapur en einmitt núna. Ég byggi það á því að NATÓ hefur breyst í eðli sínu. Í varnarsáttmála NATÓ segir að árás á eitt ríki jafngildi árás á annað. NATÓ hefur þróast frá þessu fyrirkomulagi yfir í allt aðra hugsun. Í stað þess að sagt sé að árás á eitt ríki sé árás á öll er sagt að ógnun við eitt ríki sé ógnun við þau öll. Samhliða þessu er talað um fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir ógn og síðan árás. Þessara fyrirbyggjandi aðgerða megi grípa til hvar sem er á jarðkringlunni. Þá spyr ég: Hverjum er líklegast til að verða ógnað í heiminum nú um stundir? Gæti það verið sá aðili sem ásælist hráefni, olíu og auðlindir annarra ríkja? Ætli stórveldin séu ekki þar fremst í flokki. Formúlan er orðin sú að við eigum allt okkar undir því hver stýrir för í Bandaríkjunum og því hversu árásargjarn og yfirgangsamur hann er í heiminum. Ef honum er ógnað þá er okkur líka ógnað og við tökum þátt í öllum þeim fyrirbyggjandi aðgerðum og í kjölfarið árásarstríðum sem honum þóknast að grípa til. Þá spyr ég: Er þetta líklegasta leiðin til að gæta varnarhagsmuna Íslands? Ég held ekki. Ég held að það sé til önnur leið sem er miklu vænlegri og hún er sú að fylgja réttlátum málstað."

Það eru deildar meiningar um Evrópusambandið hjá Vinstri grænum en fer ekki svo að stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar muni hafa sigur í því máli?

„Ég skal ekki um það segja hver þessi þróun verður. Verkstjórarnir í efnahagsmálum á undangengnum tveimur áratugum, og þá horfi ég til Sjálfstæðisflokksins, hafa sett hér allt á hvolf í efnahagslífinu. Menn leita leiða til að endurreisa samfélag okkar og efnahagslíf og líta til Evrópusambandsins sem töfralausnar sem öllu eigi að bjarga. Við getum aldrei og eigum ekki að reyna að flýja okkur sjálf. Vandinn er að uppistöðu til hér innanlands. Hér á landi eru allar aðstæður til að reka mjög kröftugt samfélag. Við höfum farið út af brautinni með óhófi og ekki sést fyrir í allri þessari einka- og markaðsvæðingu og með því að gefa græðginni og þotuliðinu lausan tauninn. Að þessu eigum við að beina sjónum okkar. Við megum heldur ekki gleyma því að innan Evrópusambandsins, eins og reyndar víða um heim, er fólk að glíma við gríðarleg vandamál. Umræðan um evruna er allt of einfölduð enda þjónar slíkt tilteknum valdahagsmunum. Tökum dæmi. Hérlendis hefur hingað til verið sátt um að það sé forgangsverkefni að halda fullri atvinnu. Á evru-svæðinu má segja að atvinnuleysi sé nánast notað sem hagstjórnartæki. Þar er langtum meira atvinnuleysi en hér. Viljum við slíkt?"

Dómgreindarleysi í stóriðjustefnu

Þú ert virkjanaandstæðingur. Hvað viltu gera til að efla efnahagslífið ef ekki á að virkja?

„Virkjanir eru ekki skynsamleg lausn í efnahagslegu tilliti. Staðreyndin er sú að virðisaukinn af álframleiðslu í eigu erlendra auðhringa er miklu minni en af nánast allri annarri atvinnustarfsemi. Varnaðarorð okkar í Vinstri-grænum voru á þann veg að ef geysilegum fjármunum yrði hent í stóriðju skapaðist þensla sem myndi þrýsta vaxtastiginu upp og þar með ryðja annarri atvinnustarfsemi út. Þetta er allt að ganga eftir. Það hafa verið að birtast mjög athyglisverðar greinar, í Morgunblaðinu til dæmis, þar sem menn vara við að haldið sé áfram á þessari braut. Ragnar Önundarson, Þröstur Ólafsson og Jónas Haralz hafa meðal annarra skrifað á þennan veg. Fjölmargir sem eru ekki endilega á sömu pólitísku línunni sjá dómgreindarleysið í áframhaldandi stóriðjustefnu."

Ertu alfarið á móti virkjunum eða skiptir máli til hvers er virkjað?

„Við eigum að draga andann djúpt og ekki ráðast í frekari virkjanir fyrr en sátt hefur náðst um náttúruvernd og rammaáætlun um nýtingu orkunnar. Slíkt þarf tíma, yfirlegu og vönduð vinnubrögð. Orkuauðlindir okkar verða bara dýrmætari með árunum, náttúrugersemar sömuleiðis. Við eigum ekki að ana áfram út í fenið og verðum að gæta okkur á því að gerast ekki of frek gagnvart öðrum kynslóðum. Hér er verið að virkja og festa orkuna áratugi fram í tímann og það nánast eingöngu í álframleiðslu. Það er ekki skynsamlegt."

Þjórsá heldur með okkur

Þú ert formaður BSRB. Það hefur verið gagnrýnt að BSRB hafi boðið sérfræðingum í heilbrigðismálum hingað til lands, sérfræðingum sem sagðir eru vinstri sinnaðir og sammála Vinstri-grænum.

„Mér finnst uggvænlegur sá ofsi sem rís vegna gesta sem hafa komið í boði okkar í BSRB til að upplýsa um reynslu annarra. Menn leyfa sér að gera lítið úr þeim, jafnvel sverta mannorð þeirra og gera þeim upp skoðanir í stað þess að mæta þeim með rökum. Hjá BSRB erum við að gera nákvæmlega það sama og verkalýðshreyfingin í heiminum öllum sem lætur sig samfélagið varða, framtíð þess, skipulag og hvort við höfum velferðarkerfi sem er skynsamlega fjármagnað eða kerfi sem er ávísun á mismunun í samfélaginu."

Það er stundum talað um stjórnmálamenn eins og þeir tilheyri spilltri stétt. Hvernig eiga þingmenn að losa sig undan slíkum stimpli?

„Það sem mér finnst skipta mestu máli er að upplýsingar um fjármálatengsl, hagsmunatengsl og pólítísk tengsl séu uppi á borðinu. Það er besta vörnin. Þegar við horfum nú upp á markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins þá þurfum við að vita hver tengslin eru út á markaðinn og inn í þingið, inn í borgarstjórn, inn í bæjarstjórnirnar. Þetta á allt að liggja uppi á borði. Ég hvet fjölmiðla til að knýja þá stjórnmálaflokka sem þráast við til að opinbera öll sín tengsl og fylgja því eftir með kortlagninu. Stærstu hætturnar felast í upplýsingaleynd - í þögninni. Í skjóli leyndar þróast spilling. Síðan er náttúrlega hitt að stjórnmálamenn mega aldrei falla í þá gryfju að nota aðstöðu sína til að hygla sjálfum sér. Þannig eru eftirlaunalögin svartur blettur sem verður að þvo af Alþingi"

Eiga Vinstri grænir erindi í ríkisstjórn? Eruð þið ekki bara stjórnarandstöðuflokkur sem getur haldið í prinsipp í stjórnarandstöðu en yrði að víkja frá þeim í ríkisstjórn?

„Ég held að það sé rangt að stilla þessu svona upp. Hverjir hafa verið hinir ábyrgu aðilar í efnahagsmálum, í fjármálum ríkisins og skattamálum? Það erum við. Við höfum fylgt mjög ábyrgri stefnu og höfum aldrei verið með yfirboð. Varðandi umhverfismál þá held ég að flestir myndu skrifa upp á það að stefna okkar er ábyrg og yfirveguð. Ég er auk þess sannfærður um að Þjórsá heldur með okkur og hefði ekkert á móti því að við færum í ríkisstjórn."

En er ekki nokkuð þreytandi til lengdar að vera í stjórnarandstöðu?

„Það er þreytandi að horfa upp á vanhugsaðar hugmyndir keyrðar í gegn með offorsi. Mér finnst hins vegar ekki erfitt að lúta tímabundið í lægra haldi. Ég er vanur því að eiga við fólk og virði leikreglur lýðræðisins. Ef ég verð undir eftir átök og upplýsta umræðu þá verð ég að taka því. Ég held áfram og gefst ekki upp. Mér finnst hins vegar óþolandi þegar upplýst umræða fær aldrei að eiga sér stað. Það gerist iðulega þegar við trúmenn markaðshyggjunnar er að glíma. Þeir horfa fjarrænum augum út í loftið og segja: Þetta er best komið í höndum markaðarins. Hvort heldur er að baða gamla konu, taka við slösuðum manni á bráðavakt, reka kaffihús eða róa til fiskjar. Sumt á heima á markaði og sumt ekki. En það er ekki hægt að tala við ofsatrúarfólk. Það horfir framhjá manni og endurtekur trúarjátninguna. Ef maður meðtekur ekki fagnaðarerindið þá er maður vantrúaður. Á móti öllu. Stalínisti. Í svona ástandi er erfitt að halda uppi upplýstri umræðu. Þegar menn eru komnir í þrot þá eru uppnefnin ein eftir. Reductio ad Stalinum, myndi það kallast á latínu, að trompa með Stalín héti það á íslensku.
Ég er fyrst og fremst í þessari pólitísku baráttu vegna þess að ég get ekki annað. Ég yrði alveg óþolandi ef ég yrði settur í pólitískt bindindi. Ef einhver stendur í þeirri trú að ég vilji kyrrstöðu þá er það misskilningur. Ég vil kraft og líf á öllum sviðum þjóðlífsins, endurnýjun og nýsköpun. Ég er fylgjandi margbreytileikanum og vara við einsleitninni. Með einkavæðingu og markaðsvæðingu er því miður verið að keyra okkur inn í slíkan farveg. Gildismat okkar verður að vera byggt á heilbrigðum og sanngjörnum grunni til frambúðar. Jöfnuði og jafnrétti má aldrei aftur fórna á altari græðgi, spákaupmennsku og auðkýfingadýrkunar."