Fara í efni

GUÐFINNA OG SKÖPUNARSAGAN


Á þingi Evrópuráðsins var fyrir nokkrum dögum fjallað um það sem á ensku er stundum kallað  Intelligent Design og ég hef þýtt sem Vitræn Hönnun. Þeir sem aðhyllast þessa kenningu telja að forsenda þess að skilja náttúruna í öllum sínum margbreytileika sé viðurkenning á því að baki hljóti að vera "skapari". Þetta er afstaða þeirra sem trúa á Biblíuna (eða þess vegna önnur trúarrit) í einu og öllu og þá einnig bókstaf hennar um "sköpunarsöguna".

Verði ljós…

Vitræn Hönnun, Intelligent Design lætur hins vegar betur í eyrum en bókstafstrú og hefur auk þess vísindalegt yfirbragð.  Á undanförnum árum hafa strangtrúarsöfnuðir í Bandaríkjunum og samtök þeim tengd farið mikinn og viljað hnekkja lögmálum í líffræði og jarðfræði, sem ganga í berhögg við sköpunarsögu Biblíunnar.
Þeim hefur orðið talsvert ágengt undir verndarvæng Bush, forseta sem nánast hefur verið strengjabrúða þessara afla. Þess má geta að með beinni fyrirskipun úr Hvíta Húsinu var ákveðið að selja trúarleg "fræðirit" um sköpun jarðar sem vísindarit í þjóðgörðum í Bandaríkjunum!  Í Evrópu er farið að gæta þessara tilhneigingar og hafa sköpunarsögumenn að undanförnu stöðugt reynt að færa sig upp á skaftið.

Lítil frétt í RÚV

Um miðja síðustu viku birtist þessi litla frétt á RÚV: "Ályktun um að varað verði við því að sköpunarkenningin verði kennd sem vísindagrein í hinu opinbera menntakerfi var samþykkt í Evrópuráðinu á fimmtudaginn. Guðfinna Bjarnadóttir, fulltrúi Íslands, greiddi atkvæði gegn ályktuninni. Guðfinna segir að þó hún sé efnislega sammála því að ekki skuli blanda saman trú og vísindum hafi skýrslan sem ályktunin var byggð á borið vott um hræðsluáróður og í hana hafi vantaði tölfræði sem styddi að þetta væri raunverulegt vandamál. Það eigi ekki að vera í verkahring Evrópuráðsins að móta námsefni heldur ríkisstjórna í hverju ríki."

Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn að Evrópuráðið ræði?

Tillagan í Evrópuráðinu gekk út á að vara við því að sköpunarkenning Biblíunnar verði kennd í skólum sem hver önnur vísindagrein. Guðfinna Bjarnadóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins telur að Evrópuráðið eigi ekki að skipta sér af málum af þessu tagi heldur eigi það að vera á verksviði einstakra ríkja og sveitarfélaga. Mikið rétt. En hvað er að því að Evrópuráðið hafi skoðun á máli af þessu tagi? Er þetta ekki einmitt dæmigert um mál sem Evrópuráðið á að fjalla um –vísindi og  mannréttindi?  Hvað vill Guðfinna Bjarnadóttir og Sjálfstæðisflokkurinn að Evrópuráðið fjalli um fyrst ekki má álykta um tilraunir til að færa skólakerfið til baka um nokkrar aldir?

HÉR og HÉR er að finna umfjöllun hér á síðunni um þetta efni.