Fara í efni

GRUNNSKÓLAR AÐ HÆTTI ALRÆÐISRÍKJA

DV
DV

Birtist í DV 22.02.13.
Í DV. sl. miðvikudag er að finna frétt undir yfirskriftinni: Klámbann „að hætti alræðisríkja". Þar er vísað til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum um þær tillögur sem eru til umræðu hér á landi um möguleika þess að fylgja eftir lögum um bann við dreifingu kláms. Blaðamaðurinn býr til þessa fyrirsögn og setur hluta hennar innan gæsalappa en í fréttinni er vísað til umfjöllunar í breska dagblaðinu Telegraph. Í Telegraph er hins vegar ekki að finna vísan til alræðisríkja, líkt og skilja má ef fyrirsögninni. Þetta er því útlegging blaðamannsins sjálfs og sett upp í því augnamiði að draga upp ákveðna mynd af þeirri umræðu sem ég hef staðið fyrir og talið nauðsynlega, umræðu sem fjallar um lög sem ekki eru virk og um aðgengi ofbeldisfulls efnis að börnum. Og umræðan var ekki úr lausu lofti gripin, hún kemur til vegna ábendinga fjölmargra sérfræðinga sem hafa lýst áhyggjum af þeim áhrifum sem útbreiðsla ofbeldisfulls kláms hefur á samfélagið, þar með talið á börn, sem eru að meðaltali ellefu ára gömul þegar þau sjá ofbeldisfullt klám í fyrsta sinn. Sum þeirra verða fyrir sálrænu áfalli vegna þess efnis sem þau sjá. Ég geri ráð fyrir að fáir geti horft á ellefu ára gamalt barn og hugsað með sér að það væri því fyrir bestu að ofbeldisfullur klámiðnaður fengi að því aðgang, til að móta sjálfsmynd þess og hugmyndir um kynlíf og samskipti kynjanna.

Blokkir og grunnskólar

En að þeirri fullyrðingu blaðamannsins, að hérlend umræða um möguleika á að stemma stigu við dreifingu kláms sé sjálfkrafa „að hætti alræðisríkja". Það er sannanlega rétt að einræðissinnar heimsins vilja gjarnan ná tökum á frjálsum skoðanaskiptum fólks og fréttaflutningi. Þeir vilja jafnvel stýra klæðaburði fólks, samskiptum og mannamótum og svo væri hægt að telja lengi áfram. Alræðissinnar sem fara með völd taka ákvarðanir án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu. Þeir reisa blokkir og leggja vegi, byggja við fangelsi og  setja lög um grunnskóla. En bíddu nú við, þetta gerum við líka. Hér á landi eru reistar blokkir og borað fyrir göngum. Við erum líka með grunnskóla og fangelsi, eins og í ríkjum þar sem fólk er ekki frjálst skoðana sinna. Hver er þá munurinn á okkur á Íslandi og á alræðisríkjum? Jú, munurinn er sá að hér er ríkir ekki alræði, heldur lýðræði. Munurinn felst í leiðinni að ákvörðunum. Hér þarf aðkomu fjölmargra aðila áður en ákvörðun er tekin. Og hér hafa allir heimild til að láta í ljósi sína skoðun á fyrirætlunum þeirra sem fara með ákvörðunarvaldið.

Hver fer með valdið?

Með þessu er ekki sagt að Ísland hafi nálgast einhvers konar fullkomnun þegar kemur að lýðræðinu. Þar vantar mikið upp á og sem dæmi má nefna að í drögum að nýrri stjórnarskrá er ekki gert ráð fyrir að fá megi fram þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárhagsleg málefni. M.ö.o. lítur fjöldi fólks enn svo á að valdið sé ekki þjóðarinnar, heldur valdhafanna, sem þó fengu upphaflega umboð sitt frá þjóðinni! Þetta er þáttur í mikilvægri og viðvarandi umræðu um lýðræðið, sem okkur ber bæði að standa vörð um og halda áfram að þróa.

Lýðræðislegt ferli

Hvað varðar tillögur um aðgerðir til að bregðast við útbreiðslu ofbeldisfulls klámefnis þá eru þær einmitt nú til lýðræðislegrar umræðu. Dreifing kláms er bönnuð samkvæmt íslenskum hegningarlögum og það er því full ástæða til að ræða virkni þeirra laga og þær stoðir sem þau hvíla á. Ennfremur hafa sérfræðingar bent á að áhrifa ofbeldisfulls kláms gæti í kynferðisbrotum en einnig í samskiptum unglinga. Þess vegna stóðu innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið á haustdögum fyrir viðamiklu samráði um klám, þar sem sérfræðingar og frjáls félagasamtök voru kölluð til. Tillögur úr þessu ferli eru nú til meðferðar hjá ráðuneytunum þremur, þar með talið þær er lúta að lagaumhverfinu. Settur hefur verið niður starfshópur til að kortleggja möguleg úrræði og verður sú kortlagning grundvöllur frekari umræðu og ákvarðanatöku um mögulega frumvarpssmíð. Í framhaldinu kæmi málið til kasta Alþingis, sem aftur kallar eftir umsögnum og sjónarmiðum allra sem vilja láta sig málið varða. Það er því ekkert alræðislegt við þau skref sem hér eru stigin og fyrirsögn þeirrar fréttar sem vísað er til í upphafi þessa pistils er því álíka marktæk og fyrirsögnin: Grunnskólar „að hætti alræðisríkja".