Fara í efni

GRIKKLAND MUN GERA OKKUR RÓTTÆKARI

Grikklland - ÖJ
Grikklland - ÖJ

Allir fylgjast í ofvæni með þróun mála í Grikklandi. Það höfum við gert undanfarin misseri. Við höfum fylgst með þrengingum og niðurskurði. Fréttum fjölmiðlanna af „björgunaraðgerðunum".

Grísk vinkona mín segir að atvinnuleysið sé farið að bíta illa í liífskjörin og valda verulegum félagslegum vanda. Hún segir að sú staðreynd að atvinnuleysi á meðal yngstu kynslóðanna á vinnumarkaði sé komið yfir 60%, sé í hæsta máta alvarlegt. Miðstéttarfólk missi vinnuna í vaxandi mæli. Það eigi yfirleitt erfiðara með að komast af en tekjuminnstu stéttirnar. Þær séu vanari þrengingum og hafi komið sér upp samskipta- og vöruskiptakerfi sem miðstéttin hafi ekki aðgang að. Auk þess sé lífskjarahrapið brattara og þessu fólki illviðráðanlegt. Umhugsunarvert.

Við höfum um nokkurra mánaða skeið fylgst með þýskum og frönskum hrokagikkjumúr innstu og æðstu hringjum stjórnkerfislanda sinna og Evrópusambandsins,  tala um nauðsyn þess að aðGrikkir ráðist í einkavæðingu og sölu á sameignlegum eignum sínum. Hafnirnar í Þessalóníku og Píresus hafa verið nefndar sérstaklega. Kínverjar hafa sýnt áhuga á að kaupa. Og evrópskir kapítalistar bíða gráðugir eftir að komast í félagslega innviði Grikklands til að naga þau bein sem þar er að finna. Hvaða orð á að nota um þetta? Hver og einn hugsar eflaust sitt.

Síðastliðinn föstudag fékk ég bréf frá annarri grískri vinkonu minni sem er þingmaður stjórnarflokksins, Syriza. Hún sagði að reiði væri ríkjandi, ekki síst innan Syriza. Mörgum þar fyndist ríkisstjórnin og þar með flokkurinn, hafa gengið alltof langt í undanlátssemi  við evrópska auðvaldið og erindreka þess. Margir væru reiðir og leiðir. Kannski væri depurð rétta orðið.

Ég svaraði því til að dagur kæmi eftir þennan dag. Grikkir hefðu með framgöngu sinni boðið fjármagninu byrginn. Það hefðu þeir gert hver svo sem nú yrði framvindan. Framganga Grikkja og viðbrögð peningavaldsins hefðu gert meira til að opna augu okkar en flest annað sem hent hefði í seinni tíð. Ég hefði trú á því að með okkur mörgum hefði verið tendrað bál sem ekki yrði auðveldlega slökkt. Grikkland hefði þegar gert okkur róttækari og gagnrýnni. Það væri góð samfélagskennd að finna til eftir doða og værukærð alltof margra í þrjá áratugi.

Ég sagði grísku þingkonunni að á Íslandi væri gamla sagan að endurtaka sig. Fjármálakerfið að rísa úr rústum, gráðugt og ósvífið í ætt við það sem áður var - það virtist ekkert hafa lært. Því miður hefði ríkisstjórn okkar sem kennum okkur við félagshyggju og sat við stjórnvölinn í kjölfar efnahagshrunsins, ekki gengist fyrir grundvallarstrúktúrbreytingum í fjármálalífinu og þótt okkur hefði tekist sitt hvað vel hvað varðar skattkerfisbreytingar og í  mannréttinda- og umhverfismálum og við tímabundið kveðið niður versta einkavæðingarfárið, þá væri miklu meira ennþá ógert!

Íslenskir félagshyggjumenn væru komnir út í horn samkvæmt skoðanakönnunum. Ég sagðist sannfærður um að þeir ættu eftir að reisa sig að nýju. Þeir myndu þó ekki rísa úr sinni öskustó nema með miklu trúverðugri framgöngu en þeir hafa sýnt um hríð og að þeir þyrftu að sýna á sannfærandi hátt að þeir væru tilbúnir að ráðast að rótum samfélagsvandans, auðhyggjunni í öllum sínum myndum. Félagshyggjumenn yrðu að sýna að þeir leggi meira upp úr mannréttindum en einkaeignarrétti stóreignafólks og væru reiðubúnir að spyrja þjóðfélagsþegnana beint og milliliðalaust um alla hluti, líka hina fjárhagslegu. Það gerðu Grikkir einsog við vitum enda refsingin í samræmi við það.

Auðvitað er nú  hætt við sundrungu innan Syriza. Það má hins vegar aldrei verða takmark í sjálfu sér að halda þeim flokki saman sem stofnun heldur að fylkja liði um þær hugsjónir sem hann er myndaður um. Öllu gildir nú samstaða um þessar hugsjónir. Ef forysta Syriza ber gæfu til að skilja mikilvægi þessa  mun sá flokkur styrkjast og dafna. Opin lýðræðisleg umræða innan Syriza um grundvallarstefnumarkmið flokksins og skyldra félagslegra afla mun halda hinum róttæku fánum blaktandi sem aldrei fyrr og kveikja í brjóstum okkar viljann til að brjótast út er þeirri herkví sem kapítalisminn hefur leitt okkur í allar götur frá því að æðstu prestar nýfrjálshyggjunnar hófu trúboð sitt í byrjun níunda áratugar síðustu aldar.

Þeir hafa haft mikinn eyðileggjandi árangur. Þeir hafa uppskorið vel og fært uppskeru sína á neysluborð samfélaganna. Nú er matseðillinn orðinn okkur vel sýnilegur. Og meistarakokkarnir líka. En nú fjölgar þeim sem eru búnir að fá nóg bæði af matnum og meisturunum.

Framundan eru betri tímar ef við viljum. Spennandi tímar!