Fara í efni

GOTT HJÁ EIRÍKI

Kennarasamband Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem stjórnir lífeyrissjóðanna eru hvattar til að fjárfesta ekki í fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir stjórn aðila sem áður hafa valdið sjóðunum alvarlegu fjárhagstjóni. Fram kemur í Morgunblaðinu í morgun að Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, hafi beitt sér í þessu máli innan Kennarasambandsins og þá ekki síður í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þar sem hann á sæti. Fram kemur að á fyrri staðnum átti þetta sjónamið góðan hljómgrunn. Vonandi verður hið sama uppi á teningnum hjá lífeyrisjóðunum sem komið hafa á fót svokölluðum Framtakssjóði, sem er hugsaður til að örva atvinnulífuið.
Framtakssjóðurinn olli deilum á sínum tíma - það þekki ég frá eigin stjórnarsetu í LSR - og vil ég taka undir það með Eiríki Jónssyni að lífeyrissjóðirnir verða að vanda sig ef þeir ætla ekki að misbjóða eigendum sínum, sjóðsfélögunum.
Í viðtali við Eirík í Morgunblaðinu í morgun segir Eiríkur: „Ég vil ekki sjá Framtakssjóðinn notaðan til þess að endurreisa einhverja víkinga sem hafa skilið eftir sig slóðina af afskrifuðum skuldum."
Í frásögn Morgunblaðsins kemur enn fremur fram það sjónarmið Eiríks Jónssonar að bankarnir verði að átta sig á siðferðislegri ábyrgð sinni, lífeyrissjóðirnir séu stærsta fjárfestingaraflið í landinu, og geti bankarnir ekki reiknað með aðkomu þeirra ef þeir halda áfram á þeirri braut sem þeir virðist komnir út á, að endurreisa kerfið í fyrri mynd.