Fara í efni

GOTT FRAMTAK HJÁ ÁLFHEIÐI OG HELGA

Álfheiður Ingadóttir og Helgi Hjörvar, sem sæti eiga í stjórn Landsvirkjunar kröfðust þess á stjórnarfundi í gær að aflétt yrði leynd yfir verði á raforku til stóriðjufyrirtækja.
Forstjóri Landsvirkjunar mætti í kjölfarið í alla fjölmiðla og sagði að slíkt væri af og frá því þá gætu væntanlegir stóriðjukúnnar borið sig saman við fyrri kúnna og það væri Landsvirkjun ekki hagstætt. Les: Svo slæma samninga hefur Landsvirkjun gert að ekki er rétt að upplýsa væntanlega viðskiptavini í stóriðjubransanum um kjörin!
Hvað sem þessu líður hlýtur það að teljast með ólíkindum að halda leyndum þessum upplýsingum fyrir þjóðinni. Auðvitað vita það allir í heimi stóriðjunnar á hvað raforkan gengur á hverjum stað. Það er því ekki verið að leyna þessum upplýsingum fyrir álrisunum heldur íslensku þjóðinni sem reiðist því að hún skuli látin borga margfalt hærra verð en fjölþjóðleg stóriðjufyrirtæki sem tekið hafa sér bólfestu á Íslandi í boði ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks – og því miður Samfylkingarinnar sem stutt hefur stóriðjuáformin. Helgi Hjörvar var eini Samfylkingarfulltrúinn í stjórn Landsvirkjunar sem greiddi atkvæði gegn samningunum við Alcoa á sínum tíma, hinir studdu hann. Á þeim tíma átti VG ekki fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar. Það var ekki fyrr en vorið 2003 að Álfheiður Ingadóttir var kjörin stjórnarmaður í Landsvirkjun og hún stóð að fyrrnefndri tillögu í gær. Hvernig skyldi standa á því að í fjölmiðlum skuli hún ekki innt álits á málinu, aðeins Helgi Hjörvar? Hafi Morgunblaðið og Fréttablaðið ekki fundið myndir af Álfheiði Ingadóttur í safni sínu, þá bæti ég úr því með því að birta hér mynd af fulltrúa VG í stjórn Landsvirkjunar og er fjölmiðlum frjálst að nýta hana í frekari fréttaflutningi af þessu máli.