Fara í efni

GOTT FRAMTAK GEGN ÁFENGISAUGLÝSINGUM

Á Íslandi er sem kunnugt er bannað að auglýsa áfengi. Sennilega er meirihluti landsmanna hlynntur þessu banni - alla vega eru það landslög. Þessi lög voru sett til þess ad sporna gegn áfengisneyslu i landinu. Því miður hafa margir áfengissalar sýnt fullkomið ábyrgðarleysi og virt bannið að vettugi. Smám saman hafa þeir verið að færa sig upp á skaftið og með ísmeygilegum hætti troða þeir sér inn i alla fjölmiðla, nú siðast inn á heimasíður barna, nokkuð sem Árni Guðmundsson hefur vakið athygli á. Hann segir á heimasíðu sinni um þetta efni:

"...Það eru engin mörk hvorki siðleg né lagalega fyrir því hve lágt menn leggjast í áfengisauglýsingum þessa dagana. Veit sem er að gríðarlegur fjöldi barna heldur úti bloggsíðum sem að öllu jöfnu er hið besta mál.

Á hins vegar ekki orð yfir því hvernig heilvita fólki dettur í hug að setja inn áfengisauglýsingar á bloggsíður barna eins og gert er hjá www.blog.central.is.
Brá alla vega illilega í brún þegar að ég sá að hjá 11 ára dóttur minni og öllum hennar vinkonum var bjórauglýsing. Sendi ábyrgðarmönnum meðfylgjandi línur s.l. föstudag en hef ekki fengið neitt svar?

„Ritstjóri Vísis eða ábyrgðarmaður „bloggsamfélagsins"
Var í kvöld að kíkja á bloggsíðu hjá 11 ára dóttur minni sem heldur úti ágætu bloggi hjá ykkur eins og mörg börn á hennar aldri gera. Rak í rogastans þar sem ég sá að inni á síðunni hjá henni var komin blikkandi áfengisauglýsing (Heineken bjór). Eru engin takmörk fyrir lágkúrunni þegar að ólöglegar áfengisauglýsingar eru annars vegar. Hver er ábyrgur fyrir þessu siðleysi?"
Árni Guðmundsson (sign)"


Nú veit ég ekki hvort allir áfengissalar eru svo vesælir ad brjóta landslögin. Sennilega er svo komið að undantekningarnar eru þeir sem virða landslög. Þeir ættu að njóta viðskipta okkar, hinir ekki. Auglýsingin hér að ofan fer nú víða um netið og er til marks um viðleitni þeirra sem vilja ekki láta óprúttna menn grafa undan landslögum og viðleitni samfélagsins til ad draga úr áfengisneyslu. Ég hvet alla til að gaumgæfa þennan boðskap og senda þetta sem víðast.

Hér er slóð að umfjöllun um þetta efni á Dagskinnu Árna Guðmundssonar.