Fara í efni

GOTCHA!

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 14.02.12
Fyrirsögnina sæki ég úr bófahasarleikjum frá mínum uppvaxtarárum. Þetta var tungutak kúrekamyndanna þegar andstæðingurinn hafði verið gómaður. „Ég náði þér, I got you" eða „gotcha" á slangurmáli. Við strákarnir átum þetta upp í okkar leikjum og sögðum þetta gjarnan hróðugir þegar við töldum okkur hafa haft betur í viðureign á bardagavelli.
Þetta kom upp í hugann þegar fréttastofa Sjónvarps taldi sig hafa rekið endahnút á að sanna fyrir alþjóð að ég væri ósannindamaður, hefði farið með rangt mál í Kastljósþætti þegar ég kvaðst  hafa einn við atkvæðagreiðslu árið 1996 andmælt lagaákvæði þess efnis að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (og nokkru síðar öllum lífeyrissjóðum) skyldi gert skylt að leita jafnan eftir hæstu ávöxtun fjármuna sinna. Í umræddri lagagrein er jafnframt vísað til þess að fjárfestingin skuli vera traust en krafan um hámarksávöxtun er engu að síður grunnstefið. Og þetta studdi Ögmundur sagði fréttastofan hróðug, Jón Baldvin Hannibalsson var einn á móti. „Ögmundur Jónasson var í já-liðinu".

Að njóta sannælis

Aðdragandi þessarar „gotcha" upphrópunar var orðinn nokkur. Fréttastofa Sjónvarps hafði nokkrum dögum áður tekið til umfjöllunar nýja rannsóknarskýrslu um tap lífeyrissjóðanna í bankahruninu. Þegar á heildina er litið þótti mér fréttamennskan í meira lagi yfirborðskennd og gagnrýndi ég vinnubrögðin harðlega í fyrrnefndum Kastljósþætti. Þá hafði mér óneitanlega mislíkað að þegar greint var frá tapi LSR á tímabilinu frá ársbyrjun 2008 til 2010 var skuldinni skellt myndrænt á undirritaðan með því að stimpla rúmlega hundrað milljarða tap yfir andlitsmynd af mér. Réttlætingin var víst sú að ég hefði verið stjórnarformaður árið áður, 2007. Ekki svo að skilja að ég vilji ekki horfast í augu við eigin verk og gjörðir - það vil ég gjarnan og þá allan þann tíma sem ég sat í stjórn, líka á hruntímanum. En lágmarkskrafa er að fá að njóta sannmælis.

Trúverðugar fréttastofur og ótrúverðugar

Mælikvarði á gæði fréttafólks og fréttastofa er hve alvarlega þær taka sig. Góðar fréttastofur og trúverðugir fréttamenn leiðrétta eigin mistök. Fréttastofa Sjónvarps féll í þá gryfju að gera það ekki heldur forhertist hún við gagnrýni mína og hóf undirbúning að því að sanna fyrir alþjóð að ég væri ómerkur orða minna.
Var nú búin til fréttin um atkvæðagreiðsluna um lögþvingaða hámarksávöxtun. Og niðurstaðan sú að ég hefði stutt frumvarp þar að lútandi.

Það sem látið var ósagt

Ef fréttastofan hefði viljað vera heiðarleg hefði hún látið eftirfarandi fylgja með: Á árinu 1996 kynnti þáverandi ríkisstjórn lagafrumvarp sem hefði rústað lífeyriskerfi opinberra starfsmanna ef það hefði verið samþykkt. Sem betur fer tókst að stöðva frumvapið og ná því út úr þinginu. BSRB, BHM og Kennarasamband Íslands höfðu sig mjög í frammi í þessari baráttu og innan veggja Alþingis beitti ég mér einsog ég frekast gat. Þegar frumvarpið hafði verið tekið út úr þinginu settumst við að samningaborði, framangreind samtök annars vegar og fjármálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar. Við þetta samningaborð þar sem ég var aðalsamningamaður BSRB var samið um nýjan lagagrundvöll fyrir lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna við ríkisvaldið og í kjölfarið einnig við sveitarfélögin. Til varð nýtt kerfi.

Einn stærsti sigur BSRB

Upphaflega lífeyrisfrumvarpið hefði rústað lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, en m.a. stóð til að afnema afturvirkt tryggingaákvæði sem fól í sér svokallaða eftirmannsreglu. Þessu tókst að afstýra og áunnin réttindi héldust. Samið var um nýtt kerfi sem byggðist á stigakerfi, sömu grunnhugsun og sjóðir á almennum markaði en með það markmiði að tryggja sambærileg réttindi. Í þessu fólst okkar sigur. Þegar samningurinn var kominn í lagafrumvarp studdi ég  að sjálfsögðu frumvarpið, var í já-liðinu!
En hængur var á. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar vildi gera þá breytingu á frumvarpinu að hámarksávöxtun yrði leiðarljósið en ekki örugg og samfélagslega ábyrg fjárfesting eins og ég hafði viljað.
Þessa breytingartillögu var ég ekki reiðubúinn að styðja og gerði grein fyrir þeirri afstöðu minni með eftirfarandi orðum: „Hér eru greidd atkvæði um ákvæði þar sem lögbundið er að jafnan sé leitað eftir hæstu ávöxtun sem völ er á á markaði. Ég tel rangt að lögþvinga hámarksvexti með þessum hætti. Ég tel hins vegar rétt að sjóðstjórn gæti þess jafnan að leita eftir ávöxtun fjármuna sjóðsins á ábyrgan hátt. Ég get því ekki stutt þessa brtt."

Jöfnun upp en ekki niður!

Við þetta mætti mörgu bæta. Til dæmis gera grein fyrir afstöðu þeirra sem voru andvígir tvöföldu lífeyriskerfi og þar með andvígir lagabreytingunum 1996. Það er virðingarverð afstaða þótt ekki hafi mér þótt virðingarvert að hafa af opinberum starfsmönnum réttindi sem þeir höfðu samið um og fórnað öðrum kjarabótum fyrir vikið. Sjálfur hef ég viljað jafna lífeyrisréttindi landsmanna en þá upp á við en ekki niður á við.
Öllu þessu gerði ég grein fyrir á vefsíðu minni og vísaði vefur Ríkisútvarpsins í þau skrif mín en klykkti síðan út með eftirfarandi
: Ögmundur hefur hvorki bent á rangfærslur í frétt sjónvarpsins né beðið um leiðréttingu á henni."
Mín niðurstaða varð sú að það væri ekki mitt að biðja um leiðréttingu. Fjölmiðill sem tekur sig alvarlega leiðréttir hins vegar eigin missagnir og rangfærslur.