Fara í efni

GÖNGULAG LILJU MÓSESDÓTTUR


„Lilja Mósesdóttir er í litlum takti við aðra í flokknum".
Þetta segir í fréttaskýringu um pólitíkina í Fréttablaðinu nú um helgina. Flokkurinn, sem vísað er til, er að sjálfsögðu Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þessi fullyrðing stenst ekki. Eða hvað er átt við? Lilja Mósesdóttir hefur staðið sig frábærlega sem formaður Viðskiptanefndar Alþingis, fulltrúi í Efnahags- og skattanefnd, fulltrúi Íslands í Evrópuráðinu og fjölmörgum vinnunefndum Alþingis. Þá er hún ötul baráttukona fyrir því að koma böndum á sukk og spillingu í bönkunum. Ég efast um að nokkur þingmaður hafi staðið sig eins vel og hún í viðleitni til að rétta stöðu skuldugs fólks. Hún er alla vega í góðum takti við það fólk. Sérstaklega hina tekjuminni. Vel kann að vera að einhverjum í VG líki ekki göngulag Lilju Mósesdóttur. Ef svo er þá segi ég það hiklaust að ég hefði meiri áhyggjur af þeim en Lilju Mósesdóttur! Mér líkar alla vega vel hennar taktur. Flestir félagar í VG sem ég heyri í þessa dagana eru sama sinnis.