Fara í efni

GÓÐIR BANDAMENN?


Fjölmiðlar um allan heim birtu í dag nýjar myndir af pyntingum sem bandarískir hermenn beittu fanga í Abu Ghraib fangelsinu í Bagdad í Írak. Myndirnar lýsa viðbjóðslegu atferli. Því reynir enginn að neita. Ekki einu sinni talsmaður Hvíta hússins í Washington. Hann lét þess sérstaklega getið í yfirlýsingu í dag að sérlega "óheppilegt"  væri að myndirnar birtust núna, í því andrúmslofti sem hefði skapast í samskiptum vestrænna ríkja við Arabaríkin og átti þá væntanlega við þá reiðiöldu sem risið hefur í kjölfar myndbirtinga Jyllandsposten.
Já, það er nefnilega það, óheppilegur tími! Er ekki alltaf réttur tími að upplýsa um grimmdarverk?

Talsmaður Hvíta hússins mælir fyrir hönd ríkisstjórnar sem segist málssvari "vestrænna gilda" og telur sig þess umkomna að rétta yfir böðlum á borð við Saddam Hussein. Slík réttarhöld verða aldrei trúverðug á meðan réttlætið er ekki látið ná til þeirra sem bera ábyrgð á grimmdarverkum Bandaríkjamanna, Breta og annarra innrásarherja í Írak og eru nú að birtast okkur með myndum af ofbeldisverkum breskra hermanna og pyntingum Bandaríkjamanna í Abu Ghraib. Hér er ég að sjálfsögðu að vísa í æðstu ráðamenn þessara ríkja, Bush og Blair og alla þá sem eru í vitorði með þeim. Myndirnar sem í vikunni hafa birst of ofbeldi bandarískra og breskra hermanna sýna aðeins toppinn á ísjakanum. Hér á síðunni, í blaðagreinum og í ræðum á Alþingi hef ég borið aðferðir bandaríska hersins saman við kúgunaraðferðir nasista fyrir miðja síðustu öld. Þar má til dæmis nefna handahófskennd fjöldamorð Bandaríkjahers í írösku borginni Fallujah. Ég minnist þess að fréttir af ódæðisverkunum í Fallujah þóttu einnig birtast á mjög "óheppilegum tíma".  

Í vikunni birtu fjölmiðlar víða um heim fréttir af rannsóknarskýrslu sem er í burðarliðnum um pyntingar í bandarísku herstöðinni í Guantanomó á Kúbu. Hún er unnin af fimm sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna fyrir Mannréttindanefnd SÞ. Viðbrögð í Washington hafa að sjálfsögðu verið neikvæð. Í fyrsta lagi var reynt að gera skýrsluna ótrúverðuga með því að staðhæfa að nefndarmenn hefðu afþakkað að heimsækja Guantanomo fangabúðirnar og kynnast þeim af eigin raun. Þetta mun vera rétt. En hitt var ekki látið fylgja sögunni að ástæðan fyrir því að skýrsluhöfundar afþökkuðu boðið var sú, að þeir áttu ekki að fá að ræða við fangana! Í öðru lagi sögðu talsmenn Bandaríkjastjórnar að skýrsluhöfundar hefðu gert þau regin mistök að leggja dóm á meðferð fanganna eins og um væri að ræða hverja aðra fanga. Þetta væru hins vegar stríðsfangar. Um þá ættu að gilda allt aðrar reglur!

Svona tala menn , sem halda fólki í pyntingabúðum, án dóms og laga.
Svona tala menn, sem vilja stríðsglæpadómstól fyrir alla aðra en sjálfa sig.
Svona tala menn, sem ríkisstjórn Íslands segir vera helstu bandamenn Íslands.
Svona tala menn, sem ríkisstjórn Íslands biður um að vernda okkur fyrir öllu illu.
Hve mörgum Íslendingum skyldi finnast gott að eiga svona bandamenn?
Mín tilfinning er að þeim fari nú óðum fækkandi.

Sjá nánar frétt hér: http://www.guardian.co.uk/Iraq/Story/0,,1710360,00.html   

og hér: http://edition.cnn.com/2006/US/02/13/un.guantanamo.ap/index.html