Fara í efni

GÓÐ VERKLOK BJARKAR

Björk Vilhelmsdottir
Björk Vilhelmsdottir

Ekki var ég sáttur við yfirlýsingar Bjarkar Vilhelmsdóttur, fráfarandi borgarfulltrúa, um nauðsynlegt  „spark í rassinn" á mörgum þeim sem leita til félagsþjónustunnar.
En þeim mun ánægðari var ég með svohljóðandi tillögu hennar í borgarstjórn Reykjavíkur um Palestínu:
Borgarstjórn samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við Innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskar vörur meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir."
Tillagan var samþykkt og er hún mikilvæg skilaboð til Ísraelsstjórnar um að láta af ofbeldi í Palestínu og hún er líka mikilvæg stuðningsyfirlýsing við málstað Palestínumanna sem þurfa á því að halda að vonarneistinn í hjörtum þeirra slokkni ekki.
Orð skipta máli en verkin þó enn meira máli. Þetta verk Bjarkar Vilhelmsdóttur er henni til sóma og góð kveðja þegar hún nú heldur á önnur mið.
Óska ég henni alls góðs og færi henni þakkir fyrir það sem hún hefur látið gott af sér leiða.