Fara í efni

GÓÐ ÁMINNING Í HAFNARFIRÐI


Við VG-félagar sem sóttum opinn stjórnmálafund allra flokka í Hafnarfirði í gærkvöld vorum stolt af okkar fulltrúa í umræðunum. Það var Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti flokksins sem talaði fyrir okkar hönd og fórst það frábærlega vel.
Fundurinn var hinn fjörugasti og um margt upplýsandi um afstöðu flokkanna. Oddviti Sjálfstæðisflokksins sagði  að ráðið við skuldavanda bæjarins væri m.a. að selja egnir bæjarfélagsins og var hann að sjálfsögðu þá spurður hvort til stæði að fara fram að hætti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem selt hafa eignir bæjarfélagsins með fyrirsjáanlegum vandræðum í framtíðinni . Athyglisvert þótti mér að fá um Það upplýsingar að þegar „einkaframkvæmd" frá valdatíma Sjálfstæðisflokksins um síðustu aldamót var keypt aftur til bæjarins hefði það sparað Hafnfirðingum  200 milljónir árlega, tvo milljarða á tíu árum!
 Mikilvægt er að draga af þessu rétta lærdóma. Einakframkvæmdin var upphaflega hugsuð til þess að fegra bókhaldið (skuldin var færð á fyrirtækið sem byggði viðkomandi mannvirki en ekki sveitarfélagið sem skuldbatt sig til að borga brúsann) og einnig til þess að færa einkaaðilum auðfenginn gróða á kostnað skattborgarans. Miklivægt er að kjósendur hafi það í huga að verið er að kjósa um raunverulega valkosti. Talsmenn  flokkanna í Hafnarfirði minntu okkur ágætlega á það í gær. Áherslur Guðrúnar Ágústu um jöfnuð, félagslega ábyrgð og umhverfisvernd voru allar á sínum stað.