Fara í efni

Gleymskan er glópska

Þeir gleymdu málverkum fyrir hátt í milljarð, fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í svokallaðri einkavæðingarnefnd. Er það vegna þess að íslensk menning er þeim ekki ofarlega í huga eða þótti ef til vill gott að hafa Kjarval og Ásgrím í kaupbæti – til að liðka fyrir sölunni, eggja menn til kaupanna? Ríkisbankarnir væru einfaldlega fýsilegri söluvara með Þorvald, Erró og Jón Stefánsson innanborðs. Nú hefur verið upplýst að þeir gleymdu að verðleggja listaverkafjársjóðinn. Viðskiptaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, varð heitt í hamsi á Alþingi þegar spurt var hvort ríkisstjórnin hefði ekki staðið vörð um hagsmuni almennings. Hún spurði á móti, og með nokkrum þjósti, hvort menn ætluðust til þess að ríkisstjórnin reyndi að hafa þessar eignir af nýjum eigendum, hluthöfum bankanna. Ætli þetta sé það eina sem einkavæðingarnefndin gleymdi í ríkisbönkunum? Aldrei að vita, en afkomutölur Búnaðarbankans sem verið var að birta rétt í þessu  benda til þess að listaverkasalarnir séu annað hvort ekki með réttu ráði, eða hafi líka gleymt að þjóðin á bankana. Finnst mönnum það til dæmis réttlætanlegt að kaupendur Búnaðarbankans eigi þess kost að taka inn kaupverðið sem hagnað á fimm til tíu árum? Væri ekki rétt að miða söluverðið við það sem tekur launamann að eignast 110 fermetra íbúð á sæmilegum stað í Reykjavík, svo dæmi sé tekið, svona eins og 25 til 43 ár, allt eftir lánskjörum sem Búnaðarbankinn og aðrar lánastofnanir bjóða? Það má færa fyrir því rök að hugtakið glópagull hafi nú fengið nýja merkingu.