Fara í efni

GLEÐILEGT SUMAR!


Bragi Björnsson skátahöfðingi , sagði í ræðu við hefðbundna skátamessu í Hallgrímskirkju í dag, sumardaginn fyrsta, að þegar hann héldi á vit náttúrunnar í útilegum sumarsins hyrfu allar áhyggjur sem dögg fyrir sólu enda væri bjartsýninni tjaldað. Vel mælt og uppörvandi hugsun.
Gömul þjóðtrú leggst á sveif með bjartsýnisfólki í dag því samkvæmt henni veit á gott þegar vetur og sumar frjósa saman. Það gerðist að þessu sinni. Þannig að margfalt tilefni er til að brosa breitt í dag og óska hvert öðru gleðilegs sumars. Jafnframt hljótum við öll að hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda, ekki síst þeirra sem glíma við afleiðingar náttúruhamfaranna á Suðurlandi.