Fara í efni

GLEÐILEG JÓL

Jolamynd
Jolamynd

Ég óska öllum lesendum síðunnar gleðilegra jóla um leið og ég færi ykkur þakkir fyrir að sýna skrifunum sem birtast á þessum vettvangi áhuga. Þá vil ég þakka þeim sérstakelga sem skrifað hafa bréf til birtingar á síðunni og þannig iðulega stofnað til prýðilegrar umræðu með framlagi sínu.
Nú er um að gera að njóta samvistanna með fjölskyldu og vinum eða vera í einrúmi með góðum bókarhöfundum eða tónlistarfólki. Við eigum listafólkinu okkar svo sannarlega skuld að gjalda. Á það erum við rækilega minnt á jólum þegar við færum hvert örðu gjafir - bækurnar og hljómdiskana.
Einu sinni var með okkur erlendur maður á jólum. Þá var margt í heimili hjá okkur, ættingjar erlendis frá dvöldu hjá okkur yfir jólin og barnaskari var mikill. Gjafastaflarinr voru eftir því. Eftir að menn höfðu setið að veisluborði var hafist handa við að opna pakkana. Aðkomumaðurinn fylgdist grannt með. Smám saman mátti sjá hvernig hann glennti upp andlitið, forviða yfir því sem hann þarna varð vitni að. Hann sagði fátt.
Nokkrum dögum síðar kom hann að máli við okkur. Hafði greinilega verið mjög hugsi yfir þeirri reynslu að fylgjast með íslenskri fjölskyldu á jólum.
En niðurstaða hans var þessi: Á jólum notið þið greinilega tækifærið til að fata börnin ykkar upp, gefið þeim leikföng og hvert öðru bækur og tónlist  til að næra andann. Í stað þess að kaupa allt þetta smám saman er búin til gjafa- og gleðihátið. En hagnýt er hún þessi hátíð!
Gestinum leið vel með þessa skýringu sína. Það á einnig við um mig. Ég er því fylgjandi að jólin séu hátíð gjafa og gleði og að sjálfsögðu tilefni til að minna okkur á víddir tilverunnar.
Gleðileg jól!