Fara í efni

GERUM OKKAR BESTA...


Fáar ríkisstjórnir á lýðveldistímanum hefja kjörtímabil sitt við eins erfiðar aðstæður og sú stjórn sem tók við um helgina. Við stjórnarskiptin varð minnihlutastjórn VG og Samfylkingar að meirihlutastjórn því við kosningarnar 25. apríl öðluðust þessir tveir flokkar meirihluta á Alþingi.
Hver verður prófsteinninn á þessa ríkisstjórn?
Hann verður fyrst og fremst hvort okkur sem skipum ríkisstjórnina og sá meirihluti sem hún styðst við tekst að sannfæra okkur sjálf og samfélagið um að við höfum raunverulega gert allt sem í okkar valdi stendur til að:
verja velferðina,
reisa við efnahagskerfið,
fá viðunandi lausn á skuldavanda þjóðarinnar - þar sem við borgum það sem sanngjarnt og eðlilegt getur talist,
standa vörð um auðlindirnar,
rjúfa umsátrið um Ísland með brottkvaðningu fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá landi voru.

Við erum staðráðin í því að gera okkar besta. Með þessu hugarfari var stjórnarsamkomulagið sett á blað. Mótsagninrnar í kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins annars vegar og ásetningi okkar hins vegar eru augljósar. Hvort tveggja er hluti af pólitísku landslagi Íslands. Ekkert er óumbreytanlegt í slíku landslagi. Allt streymir fram. Nú er að standast prófraunina: Gera sitt besta. Meira verður ekki gert. En ekki heldur minna.