Fara í efni

GEIR Í BLEIKU OG BLÁU

Geir HH i bleiku og bláu
Geir HH i bleiku og bláu

Í morgun kom Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fram á fundi í Valhöll, félagsheimili Sjálfstæðismanna. Hann tók sig vel út á mynd frammi fyrir risastórum bláum og bleikum bakgrunni . Það sem mér þótti merkilegast við þennan fund var sú yfirlýsing forsætisráðherra að hann hefði víst verið í vinnunni frá áramótum! Sem kunnugt er voru gárungar byrjaðir að kalla ríkisstjórn þeirra Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, Þyrnirós.
Kannski var það þess vegna sem forsætisráðherra þótti nauðsynlegt að upplýsa að ríkisstjórnin hafi alls ekki sofið. Sjálfur, kvaðst Geir hafa unnið baki brotnu frá áramótum að lausn efnahagsvandans! Það er nefnilega það. Ég er ekki viss um að þjóðin kaupi þessar skýringar forsætisráðherra. Hún hefur fylgst með heimshornaflandri hans og þá ekki síður utanríkisráðherrans, sem ferðast hefur um jarðkringluna  með heilu þotufarmana af ráðuneytisfólki og ráðgjöfum, hvort heldur er til að tala máli NATÓ eða afla stuðnings við  setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
En um hvaða verk skyldi vinnulúinn forsætisráðherrann annars vera að tala? Skoðum síðustu afrekin? Ríkisstjórnin hefur verið upptekin við að koma upp nýju hermálaráðuneyti, láta samþykkja lög sem undanþiggja fyrirtæki að greiða skatta af söluhagnaði af hlutabréfum og allra nýjast er að forsætisráðherra boðar aðför að Íbúðalánasjóði til þess að þjóna lund bankanna,  sem vilja sitja einir að íbúðamarkaðnum. Á tungumáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar heitir þetta  - svo vitnað sé í forsætisráðherrann  -  að „bæta virkni peningamálstefnunnar."
Kannski var það undarlegasta við yfirlýsingar Geirs H. Haarde í Valhöll í morgun hve önugur hann var í garð stjórnarandstöðunnar. Hún hafði þó vandað sig við að finna jákvæðar hliðar á verkum ríkisstjórnarinnar bæði vegna þess að verið var að stíga rétt skref en einnig er stjórnarandstaðan vel meðvituð um að þegar peningamálin og staða krónunnar er annars vegar er mikilvægt að jákvæðir tónar heyrist frá öllu hinu pólitíska litrófi í landinu. Það er nefnilega hlustað á okkur í útlöndum þegar á dagskrá eru ráðstafanir til að styrkja gjaldmiðilinn. Ekki veit ég hvað olli ólund oddvita ríkisstjórnarinnar. Það var engu líkara en Geir hefði verið vakinn af værum blundi og ekki kunnað þeim þakkir sem það gerði.