Fara í efni

GEIR Á EINKAVÆÐINGARBUXUM: NÆST ER ÞAÐ LANDSVIRKJUN

Nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde vill ólmur halda áfram verki forvera síns og einkavæða almannaþjónustuna í landinu. "Við eigum líka eftir að einkavæða í raforkugeiranum. Þar liggur mikið almannafé bundið", sagði hann á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins, og bætti við: "Ég sé fyrir mér að eftir nokkur ár verði tímabært að selja Landsvirkjun til langtímafjárfesta eins og lífeyrissjóða."

Hvers vegna bíða með að selja Landsvirkjun?

Tvær spurningar til Geirs H. Haarde. Í fyrsta lagi, ef til stendur að selja Landsvirkjun, hvers vegna ekki selja strax? Er skýringin ef til vill sú, að fyrst þurfi að láta skattborgarann, hreinsa upp skuldir og klára allar skuldbindingar sem gerðar hafa verið í þágu fjölþjóðlegu álauðhringanna sem Landsvirkjun hefur verið gert að þjóna? Þá fyrst og aðeins þá, sé vænlegt að bjóða hnossið til kaups; er þetta ástæðan fyrir því að Geir vill bíða í nokkur ár?
Síðari spurningin er þessi: Hver segir að lífeyrissjóðir séu svokallaðir "langtímafjárfestar", sem formaður Sjálfstæðisflokksins nefnir svo? Samkvæmt lögum, sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks stóð að, er lífeyrissjóðunum beinlínis skylt að fjárfesta aðeins þar sem hagnaður er mestur hverju sinni, að því tilskyldu, að sjálfsögðu, að fjárfestingin teljist traust.
Ég hafði miklar efasemdir um þetta ákvæði á sínum tíma og hef verið talsmaður þess að lífeyrissjóðirnir noti það gríðarlega fjármagn, sem þeir hafa til ráðstöfunar til samfélagslegrar uppbyggingar, til dæmis í húsnæðiskerfinu, og þykir bagalegt að þeir skuli hafa verið skyldaðir til þess að hlaupa jafnan á eftir hámarksgróða. Ég hef fært rök fyrir því að fjárfestingar í innviðum samfélagsins komi lífeyrissjóðunum í reynd til góða þegar til langs tíma er litið, enda þótt slíkar fjárfestingar skili ekki endilega hámarksarði þegar til skamms tíma er litið. Þessi leið er hins vegar torsótt vegna lagaskyldunnar um hámarksgróða.

Lífeyrissjóðir hugsa um að græða

Staðreyndin er líka sú, að lífeyrissjóðirnir hafa verið harla kænir braskarar á markaði og hafa haft það umfram aðra fjárfesta að þeir eru ekki að hugsa um völd, aðeins ágóða. Eðlilegt er að nú sé spurt hvort líklegt sé að einhver hugarfarsbreyting myndi eiga sér stað hjá lífeyrissjóðunum ef peningar þeirra væru í hlutabréfum í Landsvirkjun h.f.? Spyr sá sem ekki veit. Eða hvað? Það er vissulega vitað að hlutafélagavæðing fyrirtækja, sem sinna grunnþjónustu í samfélaginu, hefur reynst illa, einfaldlega vegna þess að handhafar hlutabréfa eru ótraustir eigendur. Um þetta höfum við fjöldann allan af dæmum erlendis frá. Hlutafjáreigendur vilja vera með þegar vel gengur en hlaupa annað þegar illa árar. Á lífeyrissjóðunum hvílir auk þess kvöð og lagaskylda, sem áður segir, að haga sér á þessa lund. Skyldi formaður Sjálfstæðisflokksins hafa krufið þetta mál til mergjar? Eiga sömu áhættulögmál að gilda um grunnþjónustu samfélagsins og fyrirtækjarekstur á samkeppnismarkaði?

 Tilvísun í skylt efni, en hér má finna dæmi um hve varhugavert getur verið að hlutafélagavæða grunnþjónustustarfsemi:  https://www.ogmundur.is/is/greinar/horfa-kvotakongar-til-orkugeirans