Fara í efni

GATS KEMUR ÖLLUM VIÐ


Ítarleg þingsályktunartillaga um GATS samningana var til umræðu á Alþingi í vikunni og er nú komin til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þingsins. Hættan er sú að þar dagi málið uppi eins og gerðist á síðasta ári. Andvaraleysi Alþingis í þessu máli er mjög hættulegt því áður en við vitum af erum við flækt í net skuldbindinga sem þröngva okkur til að gera grundvallabreytingar á samfélaginu. Ástæðan fyrir því að þessar viðræður fara leynt og er haldið eins leynilegum og kostur er, er án efa sú að helstu samningamennirnir innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem stýra þessum viðræðum, draga taum stórkapitalsins og  vita að opin umræða þjónar ekki hagsmunum þeirra. Það er hins vegar fráleitt að á bak við luktar dyr séu teknar ákvarðanir sem snerta allt samfélagið. Slíkt má ekki gerast. Við þurfum að reisa þá kröfu að um GATS samningana fari fram ítarleg og lýðræðisleg umræða. Þegar hafa ýmsar skuldbindingar verið gefnar af Íslands hálfu umræðulaust utan veggja Stjórnarráðsins. Þess má geta að í Evrópu fjölgar þeim sveitarfélögum sem hafa lýst sig GATS-laus svæði. Hér á þessari síðu hefur nokkuð verið fjallað um GATS (nú síðast HÉR). Hvet ég alla til að kynna sér þingsályktunartillöguna sem hér að ofan var nefnd. Þá vil ég vísa til þess mikla starfs sem sem unnið hefur verið á vegum BSRB um þetta efni en samtökin hafa að öllum ólöstuðum staðið í farabroddi í þessari vinnu.
Hér má komast inn á slóð sem vísar í frétt BSRB í dag og síðan margar athylisverðar slóðir sem tengjast þessu efni.