Fara í efni

Gagnrýni á fréttastofu Sjónvarps

Fréttastofa Ríkisútvarpsins er gagnrýnd harðlega í fjölmiðlagagnrýni Páls H. Hannessonar hér á síðunni í dag. Öllum er ljóst að á fréttamönnum hvílir mikil ábyrgð. Miklar upplýsingar berast þeim en samkvæmt venju er ekki á allt treystandi sem frá stríðandi öflum kemur. Svo mikill er titringurinn að í gær var einum reyndasta fréttamanni Bandaríkjanna sagt upp störfum fyrir að hafa látið í ljós skoðanir í íröskum fjölmiðlum um hernað Bandaríkjanna. Þarna er á ferðinni ritskoðun. Það er ekkert nýtt í stríði. En það er hættulegt þegar sannleikurinn er ekki sagður. Hvernig á að bregðast við ritskoðunaráráttunni? Með því að opna umræðuna sem aldrei fyrr. Mín tilfinning er að fjölmiðlarnir hér séu að sækja í sig veðrið í Íraksmálinu. En fjölmiðlana á líka að gagnrýna. Við munum ekki láta okkar eftir liggja hér á síðunni. Mikilvægt er að segja lof og last á fjölmiðlum enda ábyrgð þeirra mikil.