Fara í efni

Fyrirspurn til Samfylkingarinnar um sjúkdómavæðingu stjórnmálanna

Formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, fær á sig harkalega gagnrýni í bréfi frá Ólínu í dag fyrir að daðra við einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Nokkrir "núverandi og fyrrverandi þingmenn svokallaðra jafnaðarmanna hafa haldið á lofti nýrri framtíð i heilbrigðismálum landsmanna, bæði framtíð þeirra sem hafa ráð á henni og hinna sem fyrirsjáanlegt er að verða fyrir barðinu á nýfrjálshyggjunni", segir Ólína m.a.. En hún gengur lengra því hún víkur að því sem hún kallar sjúkdómavæðingu stjórnmálannna og staðnæmist þar við Einar Karl Haraldsson, sem hún réttilega vísar til sem eins af hugmyndafræðingum Samfylkingarinnar: "Jafn merkilegt þótti mér þegar ég sá framlag eins alþingismanns, forystumanns og eins af hugsuðum Samfylkingarinnar. Sá er að því er virðist genginn sjúkdómsvæðingaröflum á hönd. Hann stjórnar nú útvarpsþætti um lungnaþembu sem studdur er dyggilega af lyfjafyrirtæki sem selur lungnaþembusjúkum lyf. Maðurinn er Einar Karl Haraldsson sem hefur undanfarið setið á þingi fyrir kjósendur Samfylkingar. Ætli þetta sé markaðsvæðingin sem Össur formaður var að tala um? Eða ætli hann láti kanna þessa hlið heilbrigðismálanna næsta árið? Af hverju er ekki talað um þetta rugl tæpitungulaust Ögmundur? Ég og nokkrar vinkonur mínar við höfum verið að ræða þetta síðust daga. Okkur finnst lungnaþembuþáttur Einars og Astra dæmi um sjúkdómavæðingu stjórnmálanna og við vitum ekki til þess að Astra Zeneca framleiði lyf við þeim kvilla." 

Sjá nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/sjukdomavaeding-stjornmalanna

Ég tek undir með Ólínu að um þessi mál verður að ræða tæpitungulaust. Skyldu Össur, Einar Karl og aðrir Samfylkingarmenn ekki geta orðið okkur sammála um það?