Fara í efni

FYLGJUMST MEÐ TÍBET

Tibet 3
Tibet 3


Birgitta Jónsdóttir, skáldkona, skrifar umhugsunarverða grein hér á síðuna í dag um Tíbet og það ofbeldi sem kínverska hernámsliðið beitir landsmenn þar. Hér fyrr á tíð fór ætíð minna fyrir mótmælum gegn ofríki og ofbeldi kínverskra stjórnvalda gagnvart þegnunum en gegn hinum  sovésku Kremlverjum. Þrátt fyrir þetta er margt sem bendir til að ofbeldið hafi verið síst minna í Kína.  Hvað gæti hafa valdið þessu? Það er auglóst mál: Hernaðarlegir og efnahagslegir hagsmunir Vesturveldanna. Það sama var nefnilega uppi á teningnum og fyrr og síðar hefur verið gagnvart öðrum ríkjum og valdhöfum. Fram til 1990 var Saddam Hussein, harðstjóri og einræðisherra í Írak, þannig „góði skúrkurinn" einsog Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna vísaði einhvern tíma til hans, að því er mig minnir. Saddam fékk vopn og naut velvildar Vesturveldanna, á sama tíma og hann murkaði lífið úr sömu Kúrdunum og grátið var síðar yfir í Washington og öðrum Nató-höfuðborgum. Nú borgar sig hins vegar að hafa kínversk stjórnvöld góð, enda sjá þau vestrænum kapitalistum fyrir stærstu þrælakistu heimsins. Til er fólk sem hugsar á annan veg. Það gerir Birgitta Jónsdóttir, skáldkona. Hún spyr ekki hvenær það borgi sig að berjast fyrir mannréttindum. Hún - að eigin frumkvæði og ein á báti - stendur fyrir mótmælum  við kínverska sendiráðið í dag klukkan 17 til að hvetja okkur til samstöðu með Tíbetum og mótmæla ofbeldinu sem þeir eru beittir.
Tibet 1