Fara í efni

FUNDUR TIL FYRIRMYNDAR


Í gær efndi Reykjavíkurfélag VG til opins málþings um heilbrigðisþjónustuna. Frummælendur voru Vigdís Hallgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur á Landspítala, Þorbjörn Jónsson, formaður Læknaráðs Landspítala, Sigrún Kristjánsdóttir yfirljósmóðir á Selfossi, Ásgeir Böðvarsson forstöðulæknir á Húsavík og Dóra Hlín Gísladóttir, verkfræðingur á Ísafirði. Fundinum stýrði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG.
Fundurinn var afar vel byggður upp og nálgaðist málefnið frá mörgum hliðum.
Vigdís Hallgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítala fór yfir þær skipulagsbreytingar sem voru í pípunum fram á haust 2009, nokkuð sem ég þekki vel til sem þáverandi heilbrigðisráðherra, því á þeim tíma starfaði Vigdís að skipulagsmálum í heilbrigðisráðuneytinu undir verkstjórn Hallgríms Guðmundssonar, stjórnsýslufræðings, sviðsstjóra stefnumótunarsviðs heilbrigðisráðuneytisins. Skýrði hún bakgrunn breytinga en fram kom í máli hennar að samráðsferlar hefðu verið teknir úr sambandi áður en yfir lauk og því hefðu mál þróast á annan veg en ætlast hefði verið til. Þorbjörn Jónsson, formaður læknaráðs Landspítalans sagði að þegar fyrirhugaður niðurskurður upp á 750 milljónir sem síðast hefði verið kynntur væri kominn til sögunnar, hefði Landspítalinn þurft að þola niuðrskurð upp á sjö og hálfan milljarð frá kereppubyrjun og rakti hann hvernig þetta hefði þegar bitnað á starfsfólkinu og þjónustunni. Mönnunarvandi væri þegar farinn að segja til sín. Ásgeir Böðvarsson, forstöðulæknir á Húsavík, sagði að næðu niðurskurðartillögurnar fram að ganga, væri í reynd verið að leggja sjúkrahúsið á Húsavík niður. Tók hann mörg dæmi máli sínu til áréttingar. Hann sagði engan deila um nauðsyn þess að draga úr ríkisútgjöldum, einnig innan heilbrigðiskerfisins, en fyrr mætti rota en dauðrota. Það var inntakið, ekki hans orð. Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir á Selfossi gagnrýndi samráðsleysi mjög harkalega og sagði að með meiri samræðu hefði mátt eyða margvíslegum misskilningi einsog til dæmis þeim að á fæðingardeildum gerðist ekkert annað en að börn kæmu þar í heiminn. Þótti henni sýn á heilbrigðisþjónustuna og þröng og ákvarðanir við fjárlagagerð á villugötum. Dóra Hlín Gísladóttir, verkfræðingur á Ísafirði, flutti stórsekmmtilegt erindi en hún hefur rannsakað kostnaðarþætti í heilbrigðisþjónustu og er ganrýnin á niðurskurð á landsbyggðinni. Ég vil geta fótbrotnað á Ísafirði án þess að þurfa að fara í þyrlu til Reykjavíkur og fætt barn mitt án þess að þurfa að vera mánuð í Reykjavík ef eitthvað fer úskeiðis. Sagði hún að nú væri það almennt viðhorf að senda beri umdeilanlegar ákvarðanir sem snerta náttúruna í umhverfismat, hvers vegna ætti hið sama ekki að gilda um velferðarþjónustuna.
Í opnum umræðum í kjölfar framsöguerinda kom fram að fulltrúi VG í fjárlaganefnd Ásmundur Einar Daðasaon hefði einmitt óskað eftir slíku mati og var gerður að því góður rómur. Í máli Þuríðar Backman, foranmns heilbnrigðisnefndar Alþingis kom fram að fulltrúar VG hefðu þar beitt sér fyrir því að sá hluti fjárlaga sem sneri að heilbrigiðsstofnunum yrði endurskoðaður enda ljóst að niðurskurður þar væri langt umfram ásættanleg mörk.
Þessu er ég sammála og hefur mér þótt gott að heyra svipaða tóna heyrast frá heilbrigðisráðherra.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingflokksformaður VG, sem stýyrði fundinum sem áður segir, áréttaði þá afstöðu sína að velferðarþjónustuna yrði að verja og horfði hún þar ekki síst til heilbrigðisstofnana.

Miklar umræður fara nú fram í þjóðfélaginu um fjárlögin og hlutskipti opinberrar þjónustu. Á þeim málsviðum sem ég er í forsvari fyrir gætir áhrifa niðurskurðarins víða verulega. Við sem stöndum að stjórnarmeirihlutanum þurfum að vera meðvituð um ábyrgð okkar. Þá dugir ekki annað en horfa til allra útgjaldaþátta. Ég held að það sé engin tilviljun að nú fá hljómgrunn með þjóðinni hugmyndir um að flýta viðræðum við ESB - fá niðurstöðu í þeim málum sem þjóðin þarf að hafa vitneskju um í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB - og  draga þar með úr kostnaði við viðræðurnar. Þetta er nefnilega sama þjóðin og vill standa vörð um velferðina á Íslandi og er meðvituð um að nú þarf að forgangsraða.