Fara í efni

FUNDUR Í DAG: GEGN MANNRÉTTINDABROTUM Í TÍBET


Merkileg eru deyfðarleg viðbrögð íslenskra stjórnvalda við ofbeldi og mannréttindabrotum í Tíbet. Utanríkisráðherra hefur einsog fyrri daginn lýst yfir áhyggjum. Í mínum huga á að fordæma mannréttindabrot vafningalaust og án nokkurra undanbragða á að fordæma þau. Hrikalegur er sá grunur sem óneitanlega læðist að mér, nefnilega að íslensk stjórnvöld fari ekki hærra en upp á áhyggjustigið til að móðga ekki kínversk stjórnvöld og tefla þannig í tvísýnu hugsanlegan stuðning Kína við framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Hópur fólks hefur að undanförnu beitt sér gegn mannréttindabrotum í Tíbet og þá jafnframt í þágu mannréttindanna. Ég vil vekja sérstaka athygli á fundi sem í dag verður haldinn við kínverska sendiráðið en í kjölfar hans verður fulltrúum ríkisstjórnarinnar afhent hvatning um að taka afdráttarlausa afstöðu í þágu mannréttinda í Tíbet.
Eftirfarandi tilkynningu sendi baráttuhópurinn frá sér í dag.

„Mánudaginn 31. mars munu Íslendingar ekki láta sitt eftir liggja og taka þátt í alþjóðadegi til stuðnings baráttu Tíbeta fyrir mannréttindum og hittast fyrir utan kínverska sendiráðið að Víðimel 29, kl 17:00. 

Alþjóðaaðgerðadagurinn til stuðnings Tíbet er haldinn til að vekja athygli á að nærri 1,5 miljón manna hafa skráð nöfn sín á lista Avaaz Tibet petition sem kallar á hófsemi í aðgerðum, að mannréttindi séu virt og að kínversk yfirvöld hefji samræður við Dalai Lama.

Samskonar aðgerðir verða haldnar um heim allan og kínverskum yfirvöldum afhentur þessi listi á táknrænan máta,

Eftir stutt stopp við kínverska sendiráðið verður gengið saman að Alþingi þar sem að opið bréf verður afhent til forsætisráðherra og utanríkisráðherra. 

Í bréfinu verða eftirfarandi spurningar;

1. Er rétt að fórna mannréttindum fyrir viðskiptahagsmuni. Styðjið þið það?

2. Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera til að hjálpa Tíbetum í þeirra baráttu fyrir mannréttindum? 

Sama bréf verður síðan sent á alla alþingismenn allra flokka, þar sem þeir eru hvattir til að svara þessum spurningum samviskusamlega og svör þeirra verða svo birt á netinu.

Það hefur ríkt mikil þögn hérlendis meðal ráðamanna og enginn flokkur tekið skýra afstöðu með málstað Tíbeta. Við köllum eftir þverpólitískum stuðningi gagnvart baráttu þeirra og að íslenskir ráðamenn hvetji kínversk yfirvöld til að hefja samræður við Dalai Lama nú þegar."