Fara í efni

FUNDAHERFERÐ VG UM MATVÆLAÖRYGGI OG FRAMTÍÐ ÍSLENSKS LANDBÚNAÐAR


Ég minnist þess þegar Þuríður Backman, félagi minn í pólitíkinni, fór að brýna mig að gleyma ekki að tala um matvælaöryggi þegar landbúnaðarumræðan væri annars vegar. Þuríður var forspá um þróunina. Alllangt er um liðið síðan hún sagði mér að heimurinn væri að breytast. Við stæðum ekki frammi fyrir þeim vanda einum að ná í ódýran mat heldur hinu að fá yfirleitt mat og að hann stæðist mestu gæðakröfur. Allir þessir spádómar eru að rætast. Sífur Samfylkingarinnar um að allt sé fengið með því að fá kjúkling á gjafaprís og kál sem ekkert kostar fær á sig aðra mynd þegar horft er inn í matvælamarkað sem fyrir það fyrsta er að skreppa saman og í öðru lagi býður upp á sívaxandi mismun í gæðum.
Allt þetta kemur upp í umræðuna þegar ríkisstjórnin ætlar nú að opna markaði okkar fyrir hráu kjöti. Afleiðingar þessa gætu orðið örlagaríkar fyrir matvælaframleiðslu okkar, framleiðslu- og vinnslustéttirnar í landbúnaði og að sjálfsögðu neytendur. Í stuttu máli það sem Þuríður Backman talaði um af framsýni fyrir mörgum árum: Matvælaöryggi þjóðarinnar.
Í dag og á morgun efnir Vinstrihreyfingin grænt framboð til fundaherferðar um þetta málefni. Hvet ég lesendur síðunnar til að lesa kynningarefnið fyrir fundina - í knöppum stíl hér að neðan - og þá ekki síður að sækja auglýsta fundi: 

Um matvælalöggjöf ESB og innflutning á hráu kjöti

Saga málsins

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um að opna fyrir óheftan innflutning á hráu kjöti og ýmsu hrámeti til landsins. Reikna má með að það hafi gríðarleg áhrif á atvinnu fólks hérlendis, matvælaöryggi og gæði matar, auk þess sem ýmsir fagaðilar óttast að sýkingum muni fjölga. Frá upphafi EES-samningsins hafa Íslendingar haft undanþágu frá ESB-reglum um slíkan innflutning en bæði núverandi ríkisstjórn og sú sem á undan kom hafa verið í viðræðum við ESB um að afnema undanþáguna. Enn hefur ekki verið sýnt fram á að okkur sé skylt að innleiða þessar reglur ESB.

Tillögur Vinstri grænna

Vinstrihreyfingin - grænt framboð tekur undir með Bændasamtökunum og fleiri aðilum sem krefjast þess að afgreiðslu frumvarpsins verði frestað og munu þingmenn flokksins beita sér fyrir því. Frestun gefur stjórnvöldum svigrúm til að skoða málið betur í samvinnu við hagsmunaaðila og sérfræðinga. Nauðsynlegt er að meta afleiðingar aukins innflutnings fyrir íslenskan kjötiðnað og matvælaöryggi þjóðarinnar og láta á það reyna hvort ekki sé hægt að halda núverandi fyrirkomulagi. Ef slíkt reynist óframkvæmanlegt gefst í það minnsta meiri tími til undirbúnings fyrir matvælaiðnaðinn. Vinstri græn vilja íslenskan landbúnað á forsendum sjálfbærrar þróunar, styðja við lífræna ræktun og tryggja öllum heilnæm matvæli á sanngjörnu verði.

Vinstri græn vilja tryggja...

... matvælaöryggi

Íslendingar eru í fararbroddi og til fyrirmyndar í Evrópu á sviði matvælaöryggis. Hér hefur tekist að halda salmonellu- og kamfýlóbaktersmitum í lágmarki og mun lægri en í löndum ESB. Þessum árangri höfum við náð með þrotlausri vinnu og fjárfestingum undanfarin ár og byggt er á eftirlitskerfum og heilbrigðisstöðlum sem eru með því allra besta sem þekkist í heiminum. Fagaðilar telja að árangri okkar og matvælaöryggi geti verið stefnt í hættu með óheftum innflutningi á hráu kjöti, fóðri og öðrum landbúnaðarvörum.

... störf í matvælaiðnaði

Verði frumvarpið samþykkt má búast við að markaðshlutdeild innflutts kjöts aukist verulega og mun starfsmönnum í matvælaframleiðslu þá líklega fækka um nokkur hundruð. Þessum breytingum myndi auk þess fylgja verulegur kostnaður, meira skrifræði og fyrirhöfn.

... neytendavernd og sanngjarna viðskiptahætti

Tvær stórar verslunarkeðjur eru með um 80% markaðshlutdeild í smásöluverslun. Hætt er við að þær nái enn meira valdi yfir íslenskum búvöruframleiðendum verði þessar breytingar að veruleika um leið og neytendur búa við þessa miklu fákeppni. Hætt er við að innlendu vörunni verði ýtt aftast í hillurnar vegna þess að henni geti þær skilað aftur til búvöruframleiðenda en ekki innflutta kjötinu.

... umhverfisvernd

Auknir flutningar matvæla milli landa auka brennslu jarðefnaeldsneytis og þar með útblástur gróðurhúsalofttegunda og aðra mengun. Slíkt brýtur gegn markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinnur gegn fæðuöryggi.

Vinstri græn funda um land allt

 

Reykjavík: Fundur kl. 20 þriðjudaginn 13. maí í Bændahöllinni (Hótel Saga)

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna

Haraldur Briem, sóttvarnalæknir

Hildur Traustadóttir, formaður Félags kjúklingabænda

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna

Fundarstjóri: Álfheiður Ingadóttir, þingkona

 

Blönduós: Fundur kl. 20 miðvikudaginn 14. maí í Félagsheimilinu

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna

Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á Keldum

Skúli Einarsson, bóndi á Tannstaðabakka

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna

Fundarstjóri: Álfheiður Ingadóttir, þingkona

 

Húsavík: Fundur kl. 20 miðvikudaginn 14. maí á Gamla Bauk

Aðalsteinn Baldursson, formaður matvælasviðs SGS

Jón Benediktsson á  Auðnum, formaður stjórnar Búsældar

Jóhannes Sigfússon, formaður Félags sauðfjárbænda

Fundarstjóri: Þuríður Backman, þingkona

 

Hvolsvöllur: Fundur kl. 20 miðvikudaginn 14. maí á Hlíðarenda

Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna

Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir

Atli Gíslason, þingmaður

Fundarstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir, þingkona