Fara í efni

FULLVELDI, SJÁLFSTÆÐI, FRELSI

MBL
MBL

Birtist í Morgunblaðinu 22.06.09.
Að morgni dags 17. júní komu saman í Alþingishúsinu ráðherrar í ríkisstjórn, borgarfulltrúar og sendifulltrúar erlendra ríkja auk forseta lýðveldisins. Safnast var saman áður en gengið var fylktu liði á Austurvöll þar sem haldin var hátíðarstund til að minnast fullveldis Íslands. Einhvern veginn fannst mér það vera táknrænt fyrir þá stöðu sem við erum í að fyrsti maðurin til að heilsa mér í anddyri Alþingishússins var fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi. Mættur til að fylgjast með og fagna. Það var ekki sá sem nýlega tók ríkisstjórnina á hraðnámskeið í fjárlagagerð heldur sjálfur fastafulltrúinn, sem er smám saman að taka á sig landstjóralegt yfirbragð enda með pappír upp á slíka tign.

Sjálfstæðisflokkurinn fordæmir eigin gjörðir

Ekki veit ég hve margir hafa lesið viljayfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar, sem undirgekkst "samkomulag" við Alþjþóðagjaldeyrissjóðinn í október leið. Þetta plagg er holl lesning, ekki síst fyrir okkur sem viljum gjarnan ræða um framtíð íslenska bankakerfisins; hvort hér eigi að vera bankar í almannaeign eða hvort þeir skuli einkavæddir að nýju, hvenær heppilegt væri að aflétta gjaldeyrishöftum, hvort taka eigi risalán til nota í gjaldeyrisvarasjóð, hvort og hvernig eigi að nota slíkan sjóð og hvernig skuli gengið frá Icesave.
Eftir lestur plaggsins, sem meirihluti Alþingis lagði blessun yfir í tíð síðustu ríkisstjórnar, skilja menn betur hvers vegna Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, ræddi á dögunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar honum þótti seint miða í samningum við Íslendinga. Á öllum þessum þáttum er nefnilega tekið í "samkomulaginu" eða "viljayfirlýsingunni" frá því í október.
Þessi yfirlýsing var vissulega gerð undir nauðung líkt og Icesave-yfirlýsingin frá því í haust þar sem skuldbinda átti okkur til að borga lánadrottnum einhver hundruð milljarða króna á 6,7% vöxtum. Í óðagoti haustsins var þáverandi ríkisstjórn að sumu leyti vorkunn þótt ég neiti því ekki að mér þykir kokhreysti Sjálfstæðismanna í umræðum nú ekki byggja á góðri dómgreind.
Hvað sem því líður þá segja færir lögfræðingar og þjóðréttarfræðingar fyrrnefnda nauðungarsamninga ógilda og marklausa og beri okkur nú að skoða alla hluti á nýjum forsendum.

AGS "hjálpar"

Íslendingar eru í miklum vanda. Um það blandast engum manni hugur. Við stöndum frammi fyrir kaldhömruðu alþjóðlegu peningaauðvaldi sem miskunnarlaust beitir fyrir sig ríkisvaldi og alþjóðastofnunum. Þannig kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að okkar málum til að gæta hagsmuna erlendra lánadrottna, einkum innan Evrópusambandsins. Séð skyldi til þess, að því aðeins fengjum við aðgang að alþjóðaviðskiptum að lánadrottnarnir yndu glaðir við sitt. Ef velja þyrfti á milli hagsmuna peningamannsins eða öryrkjans þá skyldi hinn fyrrnefndi hafður í fyrirrúmi.
Af þessum sökum finn ég jafnan fyrir ónotakennd þegar talað er um "vinaþjóðir" okkar, sem nú komi okkur "til hjálpar" með lánveitingum. Ónotakenndin stafar af því að lánin eru veitt á fyrrgreindum forsendum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, einmitt þeim sömu forsendum og hafa leikið mörg ríki heims grátt. Í mínum huga rísa aðeins Færeyingar undir sæmdarheitum og lofgjörð af okkar hálfu og þá kannski einnig Pólverjar sem í fyrstu vildu rétta hjálaparhönd án skilyrða - eða þar til Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti þeim stólinn fyrir dyrnar.
Sú spurning sem við stöndum frammi fyrir er hve langt Ísland eigi að ganga í að lúta þvingunarvaldi fjármagnsins til að verða á ný gjaldgengt í alþjóðsamskiptum. Sjálfur hef ég alltaf haft miklar efasemdir um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að okkar málum því ég tel hann okkur, og þá sérstaklega velferðarsamfélaginu, stórskaðlegan. Hann leggur meira upp úr afnámi gjaldeyrishafta, lánveitingum til stuðnings genginu, Icesave fullnægingu fyrir Breta og Hollendinga, heldur en því að verja velferðina, standa vörð um innviði samfélagsins og gefa okkur tíma til að vinna okkur út úr vandanum án þess að fórna því besta í okkar samfélagi sem fyrri kynslóðir hafa byggt upp.

Arfleifð frjálshyggjustjórnar

Við getum þó þakkað okkar sæla að hér situr ekki enn frjálshyggjustjórn heldur félagslega sinnuð stjórn sem gerir allt sem í hennar valdi stendur til að draga úr skaðanum með eins félagslega réttlátum aðgerðum og kostur er. Það breytir því ekki að ég tel stefnu AGS og þar af leiðandi framkvæmd ríkisstjórnarinnar á henni, geta komist á mörk þess að skaða innviði samfélagsins varanlega. Hér þarf því að hafa augun opin. Frjálshyggjan hefði hins vegar haldið sínu striki - það sjáum við á málflutningnum. Menn mega aldrei gleyma því hverjir það voru sem hönnuðu atburðarás undangenginna ára og voru leiðsögumenn þjóðarinnar út í það fen sem hún finnur sig nú í.
Ég er eindregið þeirrar skoðunar að því fyrr sem við náum jafnvægi í ríkisbúskapnum því betra. Þess vegna þarf að afla ríkissjóði meiri tekna og draga jafnframt úr útgjöldum. Þetta myndum við gera án ráðlegginga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Íslendingar kunna að hafa mismunandi skoðun á því hvernig haga á málum. En sú grundvallarforsenda sem við sameinumst um er að við eigum að ráða okkur sjálf. Enginn er eyland var einhvern tímann sagt og má með nokkrum sanni segja að ekkert ríki sé að öllu leyti fullvalda. Hvað fullveldið varðar hefur nú orðið sú eðlisbreyting að við ráðum okkur aðeins að takmörkuðu leyti sjálf og getum varla talist fullvalda ríki.

Ísland verði fullvalda á ný

Í mínum huga öðlast Ísland ekki fullveldi á ný fyrr en við losnum úr banvænu faðmlaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég skal játa að sjálfur þarf ég að taka mér tak til að samþykkja umsóknarbeiðni að Evrópusambandinu. Það ætla ég hins vegar að gera lýðræðisins vegna. Ég vil að þjóðin sjálf taki ákvörðun milliliðalaust og til þess að geta tekið ákvörðun telur drjúgur hluti hennar sig þurfa að fá í hendur samningsdrög.Við þeim óskum tel ég að eigi að verða.
Fyrir mitt leyti hef ég lítinn áhuga á að komast í nánari snertingu við "vinaríkin" í ESB sem láta sér ekki nægja að stilla okkur upp frammi fyrir afarkostum heldur reyna að græða á ógæfu okkar. Um það bera sérstakar álags-vaxtaprósentur Icesavesamningsdraganna vott, að ekki sé minnst á aðra þætti sem birtast í aðför þeirra að Íslendingum. Allt minnir þetta á þá staðreynd að bæði Bretar og Hollendingar, helstu handhafar Icesave skuldbindinganna, voru alræmd nýlenduríki sem mergsugu þær þjóðir sem þau náðu að undiroka.

Baráttu þörf

 

Þetta minnir okkur líka á að ekki er ýkja langt síðan Ísland var nýlenda. Við, þjóðin, höfðum okkur upp úr vesöldinni. Nú þarf að rifja upp baráttusöguna um hvernig Íslendingar fóru að því að koma undir sig fótunum á öldinni sem leið og þeirri nítjándu. Það var ekki alltaf auðvelt. En við voru blessunarlega laus við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þótt við vissum af pólitísku samhengi Marshall-aðstoðarinnar að loknu seinna stríði. Hún fól þó ekki í sér skipunarvald í þeim mæli sem AGS hefur tamið sér. Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum höfðu í þá tíð ekki enn beygt sig undir boðvald fjölþjóðaauðmagns og veittu okkur óeigingjarna aðstoð í ýmsum efnum. Að uppistöðu til treystum við þó á okkur sjálf.

Nú þarf að hefja sjálfstæðisbaráttu á ný. Losa okkur eins fljótt og auðið er úr viðjum fjandsamlegra fjármagnsafla og gera Ísland fullvalda á ný. Fullveldið er ramminn um lýðræðið. Og lýðræðið er forsenda frelsisins. Til mikils er að vinna.

Ögmundur Jónasson