Fara í efni

FULLT ÚT ÚR DYRUM EN HVAÐ SVO?

MBL
MBL
Birtist í Morgunblaðinu 20.05.17.
Síðastliðinn laugardag var haldinn fundur um málefni aldraðs fólks í Iðnó í Reykjavík. Fundurinn var fjölsóttur -  fullt út úr dyrum - og í kjölfarið hafa margir spurst fyrir um gang fundarins og lýst áhuga á málefninu. Og hvert var málefnið nákvæmlega?

Fullnægjandi aðstoð?

Yfirskrift fundarins var þessi spurning: Er öldruðum í heimahúsum sinnt sem skyldi? Reynt var að brjóta til mergjar hvort sú stefna ríkis og sveitarfélaga að fólk búi á heimilum sínum á gamals aldri, eftir að það verður hjálparþurfi, hafi reynst heilladrjúg. Þegar þessi stefna var kynnt á sínum tíma, féll hún almennt í góðan jarðveg. Margir urðu þó til að skilyrða stuðning sinn.
Í fyrsta lagi vildu efasemdarmenn að tryggt yrði að fólk hefði val, enda vildu margir helst dvelja á stofnun eftir að þeir eru farnir að þurfa að reiða sig á utanaðkomandi aðstoð.
Í öðru lagi þyrftu forsendur að vera fyrir hendi til þess að fólk sem er hjálparþurfi, réði yfirleitt við þð að búa heima.
Þessi umræða er síður en svo bundin við Ísland og vísa ég þar í fróðlegt málþing um efnið á vegum Evrópusambands sjúkraliða sem haldið var hér á landi fyrir réttu ári og eru niðurstöður málþingsins aðgengilegar á vef Sjúkraliðafélags Íslands.

Mikil fyrirheit ...

En hvernig hefur þessi stefna, allir heima sem lengst, reynst vera í framkvæmd? Þetta var uppistaðan í umræðunni á fyrrnefndum Iðnófundi. Ræðumenn voru þrír og bjuggu allir yfir mikilli þekkingu og reynslu.
Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur, flutti stórfróðlegan fyrirlestur þar sem sláandi upplýsingar komu fram um aldurssamsetningu þjóðarinnar og þá hve mjög öldruðum hefði fjölgað hlutfallslega á undanförnum áratugum.  Á sama tíma hefðu hjúkrunar- og búsetuúrræðum fyrir hina öldruðu ekki fjölgað í neinu samræmi við þessa þróun. En hvað þá með hina nýju stefnu, aldraðir heima, hefur aðstoð við þá aukist með breyttum áherslum? Það var jú stefnan að fækka nýjum búsetuúrræðum en auka stuðninginn við fólkið heima við. Út á þetta gengu hin miklu fyrirheit.

... en minna um efndir

Ekki hefur þetta gengið eftir. Þórunn S. Einarsdóttir, félagsráðgjafi, sem hefur að baki nær tveggja áratuga reynslu í starfi á þessu sviði, tíundaði ýmislegt sem vel hefði verið gert en kvaðst þó verða að segja að staða aldraðs fólks í heimahúsum hefði ekki batnað í síðari tíð og ekki staðið í stað, heldur hefði hún beinlínis versnað. Þórunn sagði margt annað umhugsunarvert í ræðu sinni, en sérstaka áherslu lagði hún á mikilvægi þess að kerfið væri sveigjanlegt og tæki mið af þörfum fólks og virti óskir hvers og eins um þjónustu og aðstoð.
Þetta var einnig grunntónninn í ræðu Önnu Þrúðar Þorkelsdóttur, sem í tæpa þrjá áratugi hafði með höndum verkstjórn á félagsmálasviði Reykjavíkurborgar. Hún sagði að ástæða væri til að hugleiða með hvaða hætti væri hægt að koma í veg fyrir að kerfið yrði ómannúðlegt og vélrænt og tók dæmi þar að lútandi. Anna Þrúður lagði áherslu á að verið væri að fjalla um fólk með mismundi þarfir og óskir. Þetta vildi hins vegar gleymast. Allar lausnir yrðu að taka mið af þessu en því miður væri svo ekki og færi ástandið versnandi að þessu leyti að hennar mati.

Horft fram í tímann

Fundurinn var stuttur og bauð ekki upp á umræður að loknum fyrirlestrunum. Vissulega hefði verið fróðlegt að bera saman úrræði og stöðu mála hjá einstökum sveitarfélögum, fjalla um tilraunir sem eru í farvatninu hjá Reykjavíkurborg til úrbóta og til þess fallnar að gera þjónustuna markvissari með samhæfingu, nokkuð sem Gunnar Alexander Ólafsson hafði staldrað við í sínum fyrirlestri en hann vildi að farið yrði með öldrunarþjónustuna inn í svipaðan farveg og málefni fatlaðs fólks; hún sameinuð undir einu þaki og í allstórum einingum sem væru fjárhagslega burðugar.

Vantar fjármuni í málaflokkinn

Lokaniðustöðu hans er þó ekki hægt að horfa framhjá en hún var sú að lögboðin þjónusta og aðstoð við aldrað fólk væri undirfjármögnuð!
Reynslufólkið úr geiranum tók undir þetta.
En ef það er nú svo að staðan í þessum málaflokki er ekki að batna og henni ekki haldið í horfinu heldur sé hún beinlínis að versna, þurfa þá ábyrgðarmenn í stjórnmálum ekki að grípa til aðgerða og það strax?

Ráðamenn svari og allir á vaktinni

Margir þeirra sem komið hafa að máli við mig í kjölfar þessa fundar hafa spurt, hvað nú? Fundurinn var góður en hvað svo? Mitt svar er þetta: Ráðamenn hjá sveitarfélögum og ríkisvaldi verða að stíga fram og skýra með hvaða hætti eigi að bæta úr óviðunandi ástandi.
Fjölmiðlafólk þarf einnig að vera á vaktinni. En fyrst og fremst er það pólitíkin sem verður að svara því hvort það verði áfram þannig að aldrað fólk sem dvelur heima og þarf á hjálp að halda til dæmis til að baða sig, fái einvörðungu aðstoð við það einu sinni í viku. Mér fyndist ágætt að byrja á því að fá svar við þessari einföldu spurningu sem þó vegur svo þungt í lífi margra einstaklinga.