Fara í efni

FRUMKVÆÐI HELGU BJARGAR OG SVANDÍSAR


Fyrir fáeinum dögum birtist grein í Fréttablaðinu eftir Helgu Björgu Ragnarsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur undir fyrirsögninni Sóknarfæri með breyttri sýn. Svandís er sem kunnugt er borgarfulltrúi VG og Helga Björg er fulltrúi VG í leikskólaráði Reykjavíkurborgar. Þær Helga Björg og Svandís hrundu af stað atburðarás sem varð þess valdandi í gær að borgaryfirvöld ákváðu að greiða starfsmönnum borgarinnar sérstakar álagsgreiðslur á þeim vinnustöðum þar sem starfsmannaekla er fyrir hendi með tilheyrandi erfiðleikum fyrir þá sem eru í starfi.
 Þúfan sem velti hlassinu var ákvæði í kjarasamningum Félags leikskólakennara sem hafði verið vannýtt þrátt fyrir eftirfylgni stéttarfélagsins. Þegar  það  hafði fengist samþykkt að nýta þetta ákvæði varð niðurstaðan sú að kjarabæturnar skyldu ná til allra sem væru undir álagi af fyrrgreindum ástæðum. Þessu ber að fagna.

Þarna myndaðist þverpólitísk samstaða sem er mikilvæg fyrir þær sakir að í henni felst viðurkenning á því að stjórnmálamönnum ber að taka ábyrgð á því að kjarasmamningum á ábyrgðarsviði þeirra sé framfylgt. Stjórnmálamenn eiga að sjálfsögðu  einnig að axla ábyrgð á því að samið sé við starfsfólkið þannig að mannsæmandi sé og að launakerfin séu réttlát. Stjórnmálamenn sem ekki horfast í augu við þessa ábyrgð rísa einfaldlega ekki undir pólitískum skyldum sínum.  Í grein þeirra Svandísar og Helgu Bjargar er hamrað á ábyrgð stjórnmálamanna: "Það er afar brýnt að stjórnmálamenn láti sig kjaramálin varða og átti sig á og viðurkenni þá staðreynd að þau verða ekki rofin úr samhengi við umræðu um þjónustu borgarinnar, faglega umræðu".
Hitt sem ég vil taka undir í málflutningi þeirra Helgu Bjargar og Svandísar er mikilvægi þess að allar upplýsingar um laun og kjör séu uppi á borði. Þær segja: "Það er afar brýnt að allar upplýsingar um launamál séu hiklaust uppi á borðinu því að á grundvelli upplýsinga er unnt að ræða málin, gera tillögur til úrbóta og horfa til framtíðar. Laun eru einn stærsti útgjaldaliður borgarinnar og þáttur sem stjórnmálamenn eiga að láta sig varða, hvernig þeim er skipt með tilliti til starfsstétta, kynja og svo framvegis."
Millifyrirsagnirnar í umræddri Fréttablaðsgrein segja allt það sem segja þarf um aðkomu stjórnmálamanna að samningum við starfsmenn Reykjavíkurborgar: Borgin viðurkennir álagið/Kjaramálin á dagskrá/Allt upp á borðið/ Opin umræða og nýir möguleikar. Þetta er að mínu mati ágæt formúla fyrir Sóknarfæri með breyttri sýn.