Fara í efni

FRÓÐLEGUR OG VEKJANDI FUNDUR

Iðnó - mynd 1
Iðnó - mynd 1

Í gær var haldinn annar opni hádigisfundurinn undir yfirskriftinni „Til róttækrar skoðunar".

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á Landspítala og prófessor í sýklafræði, og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum, héldu erindi fyrir troðfullu Iðnó í Reykjavík.

Í erindum sínum svöruðu þeir spurningunni, Hver er hættan af innflutningi á ferskum matvælum?

Það var mál manna að fundurinn hefði heppnast mjög vel. Á meðal ummæla um fundinn eru eftirfarandi:

„Þarna voru samankomnir margir helstu sérfræðingar landsins á þessu sviði en ég þori að fullyrða - og þekki ég nokkuð til þessara mála - að enginn hafi gengið af fundinum án þess að hafa orðið nokkurs vísari!"  

„Öfgalaus framsetning og hófsöm á hrikalegum staðreyndum var óhemju sterk."

„Sennilega átti Sigurður Ingi, fyrrum landbúnaðar- og forsætisráðherra, kollgátuna, þegar hann sagði að augljóst væri að ástandið hvað varðar sjúkdóma og fúkkalyfjanotkun færi hraðversnandi og þyrftu menn að taka mið af því í ákvörðunum sínum."

„...  fundar í Iðnó í dag þar sem farið var yfir þau verðmæti lands og lýðs, sem felast í heilbrigði manna og dýra. Frábær fundur, takk fyrir mig."

„Það var upplifun að vera í Iðnó í dag, ég fékk að nýju trú á því að hægt væri að ná árangri, en þá þarf líka framhald á vitundarvakningunni!"

"Það var rétt hjá Guðna Ág. að þorri þjóðarinnar vill verja matvælaauðlindina."

"Afar góður fundur og afar fróðlegir fyrirlestrar. Áfram svona fundaröð Ögmundur"

"Það var enginn svikinn sem mætti á fund Ögmundar Jónassonar í Iðnó í dag. Þar voru fluttir tveir fyrirlestrar sem öll þjóði hefði átt að hlusta á ..."
 
Hvar eru ráðherrarnir, spurði fundarmaður. Ég svaraði því til að ég hefði séð fjóra fyrrverandi landbúnaðarráðherra á fundinum en vissulega hefði ég einnig viljað sjá núverandi landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra einnig. Báðum hafi verið boðið til fundarins en maður getur ekki alltaf ætlast til þess að vera heppinn í lífinu. Svo illa vildi til að í nákvæmlega þessu laugardagshádegi áttu hvorugur ráðherrann, hvorki landbúnaðarráðherra né heilbrigðisráðherra,  kost á að sækja þennan fund um hættur af innfluttum ferskum matvælum. Annar ráðherrann átti ekki heimangengt og hinn þurfti að sinna tilteknu viðfangsefni. Fundinn sóttu hins vegar - og hafi þeir þökk fyrir -  ráðuneyitsstjóri landbúnaðarráðuneytisins og aðstoðarmaður ráðherra, formaður fjárlaganefndar Alþingis, nefndarmaður í atvinnuveganefnd Alþingis, fulltrúar félagasamtaka, formaður Neytendasamtakanna mætti og formaður Samtaka verslunar og þjónustu tók til máls, svo dæmi séu tekin. Síðan var fjöldinn allur af bændum og forsvarsmönnum bænda og vísinda- og fræðimenn á þessu sviði - að ógleymdum okkur hinum öllum, sem ekki kunnum þessi fræði en viljum fræðast um matinn sem við látum ofan í okkur. Það tókst ræðumönnunum tveimur prýðilega að gera!
Hafi þeir þökk fyrir.
Iðnó 2
Iðnó 3
Iðnó 4
Iðnó 5