Fara í efni

FRÓÐLEGUR FUNDUR UM VENEZUELA


Í morgun áttum við Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB stórfróðlegan fund með José Sojo, sendiherra Venezuela á Íslandi með (aðsetur í Osló), í höfuðstöðvum bandalagsins.

Það er óneitanlega önnur mynd sem dregin er upp af gangi mála í þessu umtalaðasta ríki Suður- Ameríku, en gert er að jafnaði í stærstu fjölmiðlum heims.

Hvers vegna er Venezuela umtalað? Jú, vegna harðdrægni Hugos Chavez, forseta og stjórnar hans, í garð fjölþjóða-auðvaldsins sem fyrir stjórnartíð forsetans var að verða talsvert ágengt í að éta upp auðlindir landsmanna. Olíuiðnaðurinn í Venezuela hafði verið í þjóðareign frá miðjum áttunda áratugnum en í byrjun níunda áratugarins höfðu stjórnvöld opnað glufur fyrir erlend stórfyrirtæki að olíuauðlindum landsins. Þegar Chavez komst til valda árið 1999 höfðu þau þó aðeins eignast 20% af iðnaðinum en voru hratt að færa út kvíarnar. Annað sem þeim hafði tekist var að færa niður hlutdeild ríkisins í verðmætum olíunnar sem upp var dælt úr 30% í 1%! Þessu sneri Hugu Chavez og félagar við auk þess sem þeir festu í lög árið 2003 að almeningur (í gegnum ríkið) ætti að hafa meirihlutaeign í olíuiðnaðinum.

Fjölþjóðlegu olíufyrirtækin brugðust illa við og höfðuðu ítrekað dómsmál á hendur stjórnvöldum en töpuðu þeim öllum fyrir dómstólum í Hollandi, Englandi og víðar, svo og frammi fyrir úrskurðarnefnd á vegum Alþjóðabankans. Þetta segir sína sögu sagði sendiherra Venezuela.

Hann fræddi okkur um að komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að efnahagskerfinu í Venezuela á tíunda áratugnum og „ráðlegginga" hans um einkavæðingu almannaþjónustu, þar á með símaþjónustunnar og flugfélags landsins. Því miður hefði verið farið að þessum kröfum en breytingarnar hefðu ekki  gefist vel.

Serndiherrann rakti tilraunir til að draga úr fátækt í landinu - en þar hefði verið mikil misskipting til langs tíma. Öflugt átak hefði verið gert í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu með aðstoð  Kúbana og sagði hann að um tuttugu þúsund kúbanskir læknar væru í landinu. Það væri hátt hlutfall í ljósi þess að læknar á Kúbu væru vel innan við eitt hundrað þúsund (nefndi sendiherrann töluna sjötíu og þrjú þúsund). Það væri umhugsunarvert að í björgunarstarfinu á Haiti í kjölfar jarðskjálftanna þar nýlega væru nú um þrjú hundruð læknar frá Kúbu. Upp í minn huga kom þegar Bush þáverandi Bandaríkjaforseti hafnaði samsvarandi aðstoð frá Kúbu við fórnarlömb fellibylsins alræmda sem fór yfir New Orleans fyrir fáeinum árum. Kastró sagði þá að kúbanskir læknar væru þekktir fyrir að kunna til verka við erfiðar aðstæður. George Bush þótti hins vegar vega þyngra að leita ekki til fátæks sósíalísks ríkis um aðstoð og hafnaði allri aðstoð frá Kúbu - eða öllu heldur virti tilboð Kúbana  að vettugi - svaraði ekki. Honum þótti betra að falla á mannréttindaprófinu; fórnaði  þurfandi fólki af ótta við að heiður af góðverki lenti á röngum stað.

Við erum nú ekki komin lengra í mannkynssögunni en þetta! Kannski hefði Obama brugðist öðru vísi við? Spyr sá sem ekki veit. Hins vegar vitum við að þegar fundi þeirra Hugos Chavez, forseta Venezuela, og Baraks Obama Bandaríkjaforseta, bar við, ekki alls fyrir löngu, fór að sögn vel á með þeim. Kannski fer heimur batnandi þegar allt kemur til alls? Hann mun alla vega gera það ef vilji er fyrir hendi.