Fara í efni

FRÓÐLEG OG FRÍSKANDI UMRÆÐA

Fjölmiðlun er sífellt að taka á sig nýjar myndir og hef ég áður vakið athygli á Rauða borðinu á Samstöðinni, nýrri sjónvarpsveitu sem streymir á netinu mjög athyglisverðu efni. Ekki er ég alveg óhlutdrægur þar því úr sama myndveri á sömu stöð, Samstöðinni, er streymt hádegisþætti á sunnudögum klukkan 12, um Kvótann heim, en á þeim þætti ber ég ábyrgð.

Við Rauða borðið í kvöld voru Kristinn Már Ársælsson, doktorsnemi í félagsfræði, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Mikael Torfason, rithöfundur og Bára Halldórsdóttir, öryrki. Þættinum stjórnaði að venju Gunnar Smári Sigurjónsson, blaðamaður.

Þarna fór fram mjög fróðleg og litrík umræða sem ég hvet fólk til að nálgast á netinu. Margt athyglisvert var sagt sem situr eftir, t.d. vangaveltur Mikaels um “fólkið í framlínunni”, afgreiðslufólk í matvöruverslunum og starfsfólk í matvælaframleiðslu sem allir ættu nú líf sitt undir á sama tíma og stórum hluta fjármálakerfisins mætti loka án nokkurs skaða fyrir samfélagið. Bára sagðist ekki finna meira fyrir erfiðum kjörum í kreppu en á öðrum tímum, það sem breyttist í kreppum væri að þá nálguðust sín erfiðu  kjör hópar sem að jafnaði væru betur settir, og ef eitthvað ætti eftir að breytast í kjölfar þessarar kreppu væru það þættir sem þetta fólk ræki sig á nú og það skildi loksins að þyrfti að breyta eða “straumlínulaga”.
rauðaborðið2.JPG