Fara í efni

FRJÁLS MAÐUR ER ÓTTALAUS


Birtist í tímaritinu Þjóðmál 4. hefti, 5. árgangi
Styrmir Gunnarsson, fyrrum Morgunblaðsritstjóri, er á dýptina. Engum blöðum er um það að fletta. Enda alltaf vitað og viðurkennt - líka af pólitískum andstæðingum.  Þess vegna er nýútgefin bók hans, Umsátrið, fall Íslands og endurreisn, mikilvægur aldarspegill. Það er einmitt það sem hún vill vera. Í  þeim spegli þykist ég geta greint að Ísland getur breyst og er að breytast. Breytingarnar koma fram í viðhorfum og uppgjöri höfundar.

Styrmir fyrr og nú

Dæmi I: 15. nóvember 1992. Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins  þar sem fjallað er um umdeilda framlengingu á "Þjóðarsáttarsamningunum":
"Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, er í sérstakri stöðu nú af tveimur ástæðum. Annars vegar hefur hann meiri reynslu og yfirsýn en flestir aðrir sem að þessari samningsgerð koma og hins vegar hefur hann lýst því yfir að hann gefi ekki kost á sér til endurkjörs á þingi Alþýðusambandsins sem kemur saman seinna í þessum mánuði í fyrsta sinn í fjögur ár. Sú staðreynd að fráfarandi forseti ASÍ þarf ekki að leita stuðnings við endurkjör gerir það að verkum að hann getur starfað að málinu eingöngu á grundvelli málefnalegrar sannfæringar og er frjáls af öðrum sjónarmiðum. Í þessu felst mikill styrkur við erfiðar aðstæður..."
Með örðum orðum: Styrkurinn er í því fólginn að þurfa ekki að hlusta á fólkið.

Dæmi II: Október 2009. Umsátrið bls. 256:
 "Hvernig getum við ráðið bót á þeirri meinsemd, sem sundrungin og návígið er? Svarið er meira lýðræði - beint lýðræði - krafa fólksins á götunni í kjölfar hrunsins. Í því er fólgin lausn á grundvallarvanda í þjóðfélagsmálum okkar Íslendinga. Við búum við lýðræði, fulltrúalýðræði.Við eigum að þróa fulltrúalýðræði okkar áfram til beins lýðræðis...Þar tekur fólkið sjálft ákvarðanir um flest stór mál í beinni atkvæðagreiðslu. Hér verða færð rök að því, að svarið við þeirri djúpu meinsemd, sem fámennið og návígið er á Íslandi og hefur alltaf verið, sé beint lýðræði. Að landsmenn taki sjálfir ákvarðanir um flest stór mál og íbúar sveitarfélaga sömuleiðis á sínum vettvangi."

Róttækur lýðræðissinni

Sú framtíðarsýn sem birtist í lokaköflum bókar Styrmis er í anda róttækra lýðræðisviðhorfa. Hann bendir - réttilega -  á tengsl leyndar og ógagnsæis við vald og valdakerfi og þá hættu sem fólgin er í þessum tengslum. En með því að gera allar upplýsingar um málefni sem varða okkur öll opinberar yrði gerbreyting á samfélaginu: "Í einu vetfangi væri fótunum kippt undan lágkúrulegri fjölmiðlun, sem meirihluti fólks er þreyttur á og hefur skömm á. Og um leið yrði athyglisverð breyting á valdahlutföllum í samfélaginu. Skyndilega misstu þeir völdin, sem hafa þrifizt í skjóli leyndarinnar, sem hvílt hefur yfir stóru og smáu." (bls. 267)
Sumum finnst Styrmir geti trútt um talað, sjálfur innsti koppur í búri íslenska valdakerfisins um áratugaskeið. Gagnrýni á hendur honum sjálfum reis hátt í kjölfar þess að umtalaðir tölvupóstar voru birtir þar sem fram kom hve nátengdur hann var hugarfarslega, innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins. Stutt er á húmorinn hjá gamla ritstjóranum þegar hann tekur upp hið umdeilda orðalag tölvupóstanna í eigin texta: "Bæði í Danmörku og Svíþjóð ráða innmúraðar og innvígðar klíkur ferðinni í viðskiptalífinu" (bls. 105).
Ég segi róttækur lýðræðissinni vegna þess að hér er lagt til að þingræðið sé aflagt í núverandi mynd með tilheyrandi valdaafsali og uppstokkun á valdahlutföllum samfélgsins.

Veit hver hann er og vill að aðrir viti!

Styrmir Gunnarsson hefur aldrei reynt að draga fjöður yfir það hver hann er. Í Umsátrinu kappakostar hann að tíunda öll sín tengsl við þá aðila sem koma við sögu: "Á milli ritstjóra Morgunblaðsins á þessum tíma og æðstu forráðamanna Landsbankans, þeirra Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs, og Kjartans Gunnarssonar, varaformanns bankaráðs, voru áratuga gömul tengsl frá Heimdallardögum og í síðara tilvikinu fjölskyldutengsl...Þetta návígi, þessi tengsl, og í sumum tilvikum persónuleg vinátta, átti þátt í að ritstjórn Morgunblaðsins var ekki nægilega gagnrýnin á þær upplýsingar, sem við fengum heima fyrir, þótt við legðum rétt mat á þær fréttir og upplýsingar, sem bárust okkur utan úr heimi. Óhætt er að fullyrða, að sömu ástæður skýri að hluta til viðbrögð eða aðgerðaleysi stjórnvalda og einstakra stjórnmálamanna, þegar harðna fór á dalnum í rekstri bankanna. Návígið og flókið og margslungið tengslanet á milli einstaklinga er að mörgu leyti mesta meinsemd íslenzks samfélags. Við getum séð í skýru ljósi það sem fjær okkur er, en það er erfiðara þegar um er að ræða eitthvað sem er nær okkur." (bls. 164-165).
Nýlegt dæmi um hve umhugað Styrmi er um að lesandinn viti jafnan hver hann er, má nefna pistil hans í Sunnudagsmogganum 22.nóvember sl. þar sem hann fjallar um Evrópusambandið og Heimssýn. Þar sér hann ástæðu til að upplýsa lesendur sérstaklega um tengsl sín við málefnið og að hann eigi sjálfur sæti í stjórn Heimssýnar.
Áherslan sem hér er lögð er öðrum þræði þungur dómur yfir fjölmiðlum landsins, eða undirstrikun á því við hvaða kringumstæður ritstjórar og þá líka fréttamenn starfa. Hversu veikir, eða ósjálfstæðir, fjölmiðlarnir eru. Einmitt þetta ætti að verða þeim sem telja fréttir, opinbera umfjöllun og almenna lýðræðislega umræðu á opinberum vettvangi, umhugsunarefni, og efni í þau miklu heilabrot sem þarf til að gera fjölmiðlana og starfsmenn þeirra að því sem þeir þurfa að vera, sjálfstæðir og óháðir. Frjálsir til að geta sagt satt.

Styrkur og veikleiki

Pólitísk rótfesta Styrmis er styrkur hans og jafnframt veikleiki. Hún veldur því að lesandinn spyr sjálfan sig í upphafi bókar þar sem hann telur upp viðmælendur sína til undirbúnings bókarskrifunum hvernig á því standi að í þeim hópi skuli ekki vera Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum utanríkisráðherra. Í bókinni kemur hún af skiljanlegum ástæðum ekki síður við sögu en ýmsir þeir aðrir sem höfðu áhrif á framvinduna sem leiddi til hrunsins. Og jafnvel þótt bókin fjalli fyrst og fremst um peninga- og valdakerfið innanfrá er það og ótvíræður veikleiki á umfjölluninni að ekki skuli hafa verið víðar leitað fanga utan þess. Getur verið að Styrmir Gunnarsson - eftir áratuga tilveru í innsta kjarna íslenska valdakerfisins, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn,  hvar hann sjálfur var "innmúraður", hafði oftar en ekki verið við stjórnvölinn - geti ekki hugsað á aðra vegu en þá sem falla að þessum valdahagsmunum?
Eða er hugsanlegt að aðgöngumiðinn að þessum tilteknu valdahagsmunum útiloki samskipti við tiltekinn hóp fólks? Felst í þessum valdahagsmunum smæð sem útilokar eða takmarkar aðrar skoðanir? Er það þetta sem Styrmir Gunnarsson er byrjaður að hugleiða?

Pólitísk blinda?

Hvernig stendur á því að Styrmir tilgreinir ábendingar og ráðleggingar erlendra sérfræðinga um ráðstafanir sem grípa þurfti til í fjármálaheiminum; ráðstafanir sem hefðu dugað okkur eitthvað til varnar gegn hruni, en minnist ekki orði á að á Alþingi lágu fyrir nákvæmlega sömu tillögur og höfðu gert um árabil. (sjá frásögn af ábendingum Róberts Z. Alibers, prófessors við Chicaco skóla (bls.80) og síðan eigin ábendingar Styrmis (bls.291) þar sem hann heldur því ranglega fram að þessi mál hafi aldrei komið af alvöru fram hér á landi: "Þriðja grundvallarspurningin í rekstri bankanna er, hvort leyfa eigi starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka undir sama hatti. Þetta lykilatriði hefur aldrei verið rætt hér á landi að nokkru ráði."
Hér hefði Styrmir þurft að kynna sér betur umræðuna á Alþingi, þingmál sem lögð voru fram og þær áherslur sem fram komu í umræðu um einkavæðingu bankanna. Síðast lögðum við Jón Bjarnason fram þingmál um aðgreiningu bankanna í viðskiptabanka og fjárfestingarsjóði haustið 2008. Var það ekki í fyrsta sinni sem andstæðingar útþenslu bankanna fluttu mál sitt með þessum hætti á Alþingi. Fyrst var það gert haustið 2003.
Þá þykir mér það vera veikleiki af pólitískum toga á hvern hátt hann stundum fer silkihönskum um félaga sína í Sjálfstæðisflokknum. Í sumum tilvikum er teiknuð upp mynd af þeim sem fórnarlömbum fjármagnsins eftir að "peningarnir tóku völdin" einsog Styrmir orðar það (bls. 9, 203 og víðar).

Myndin af Davíð

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var maðurinn sem öðrum fremur hafði forgöngu um að skapa lagarammann, losaði um höftin. Síðan segir Styrmir að peningamennirnir hafi tekið völdin en Davíð ekkert fengið við ráðið í framhaldinu. Svo var komið á endanum að Davíð og vopnafélagar hans hafi viðurkennt sín í milli það sem sum okkar höfðu lengi sagt, nefnilega að við byggjum orðið "í bófasamfélagi" (bls. 192). 
Myndin sem dregin er upp af Davíð Oddssyni í bókinni finnst mér um margt trúverðug. Davíð hygg ég að hafi verið um og ó að horfa upp á einkavædda fjármálastarfsemi, pólitískt afkvæmi flokks síns, ummyndast í óviðráðanlega ófreskju. Um það eru til marks ummæli hans bæði meðan hann gegndi embætti forsætisráðherra og síðar sem seðlabankastjóri. Hvað þetta snertir hygg ég að Davíð hafi alla tíð verið einlægur og heiðarlegur. En þá er því ósvarað hvernig á því stendur að hann lét undir höfuð leggjast  að setja nauðsynlegar lagaskorður og þá má einnig spyrja söguritarann Styrmi Gunnarsson hvort ástæða sé til að sópa undir teppið pólitískri herhvöt forsætisráðherrans fyrrverandi, Davíðs Oddssonar, frá árum áður um mikilvægi markaðsvæðingar og að tími væri kominn til að "virkja eignagleðina" á Íslandi! Lítið sem ekkert bólar á þessari umræðu í bók Styrmis. Davíð Oddsson birtist okkur fyrst og fremst sem maðurinn sem barðist gegn Golíötum fjármagnsins.
Athygli vekur að Árni Mathiesen er einnig kynntur til sögunnar sem fórnarlamb í viðureign við fjármagnið. Styrmir greinir frá samtali við fjármálaráðherrann fyrrverandi í árslok 2008 þar sem  hann hafi efnislega sagt að á Íslandi væru þrjár viðskiptablokkir sem ættu hver um sig sinn banka og hver sinn fjölmiðil. „Áttu við að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hafi ekki haft bolmagn til að takast á við þessa aðila? „Já. Ég á við það," sagði þáverandi fjármálaráðherra." (bls. 85) Styrmir leiðir að því líkum að fjármálaöflin hafi verið svo beintengd inn í stjórnmálin, þá einkum Samfylkinguna, að eins hefði farið fyrir lagasetningu um bankana, ef slíkt hefði verið reynt, og fór um fjölmiðlalögin. Í þessu samhengi leiðir Styrmir hjá sér tengingar inn í Sjálfstæðisflokkinn að ógleymdri Framsókn.
Hvað sem öllu þessu leið er þetta mikil einföldun. Þær ríkisstjórnir sem fóru með völdin á þessum tíma voru ekki bara áhorfendur, hvað þá fórnarlömb. Og spurningin snýst heldur ekki um það eitt hvort eftirlitsstofnanirnar hafi sinnt eftirlitshlutverki sínu heldur einnig að hvaða marki þær ásamt stjórnarflokkunum, hinu pólitíska valdi, hafi beinlínis verið hvetjandi og gerendur í atburðarásinni.

Ekki fórnarlömb heldur gerendur

Þannig nefni ég að bæði Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráherra og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, voru  beinlínis hvatamenn að því að opnað yrði á lagalegar heimildir lífeyrissjóða að taka þátt í skortsölu vorið 2008 og allt fram að þingbyrjun þá um haustið! Við skulum heldur ekki horfa framhjá því að það er rangt sem Styrmir margendurtekur (bls. 145 og víðar) að enginn stjórnmálamaður hafi haft uppi varnaðarorð. Seint mun alla vega sá sem þetta ritar gleyma vanþóknun Valgerðar Sverrisdóttur, bankamálaráðherra og ýmissa annarra á gagnrýni sem fram kom í aðdraganda þingkosinganna 2007 um að ofvaxið bankakerfið þyrfti að gæta að sér!
Umfjöllun Styrmis um Fjármálaeftirlitið þykir mér vera ótrúlega mildileg miðað við aðstæður. Hef ég stundum spurt sjálfan mig hvort persónuleg og pólitísk tengsl manna í eftirlitsstofnunum og fjármálafyrirtækjum hafi byrgt mönnum sýn á þann hátt sem Styrmir nefnir (í öðru samhengi) og vísað er í hér að framan. Umfjöllun hans um eftirlitsþáttinn þykir mér ekki sannfærandi og læðist að grunur um hina pólitísku blindu.
Hins vegar verður Styrmi ágengt í að sannfæra lesandann um að Seðlabankinn, og þá einnig þáverandi seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, hafi á síðustu misserunum í aðdraganda hrunsins verið uppi með eindregin varnaðarorð og er tilvísan í umfjöllun Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra í ársbyrjun 2009 verð allrar athygli (bls.132).

Atburðarásin enn volg

Bók Styrmis er um margt afar áhugaverð. Hún er bráðvel skrifuð. Það er afrek að skrifa um þetta efni á þann veg að lesandanum er haldið áhugasömum og við efnið þar til yfir lýkur.
Bókin varpar skýru ljósi á ýmsa þætti bankahrunsins og nýtur bókin þess að höfundur hennar er vel tengdur inn í banka- og stjórnmálakerfið, býr sjálfur yfir yfirgripsmikilli og djúpri þekkingu á íslensku samfélagi, hefur glögga sögulega sýn og er meðvitaður um hræringar í alþjóðamálum.
Styrmir Gunnarsson hefur unnið vel sína heimavinnu. Bókina verður að sjálfsögðu að meta í því ljósi að hún er samtímasaga í eins ríkum mæli og getur orðið því síðustu tilvitnanir eru algerlega nýjar af nálinni. Atburðaráin er enn volg og rýkur upp af henni.
Styrmir fer vel yfir aðdragandann að hruninu og kemur margt fram sem er afar athyglisvert. Ég leyfi mér að fullyrða að sumt sem fram kemur í bókinni hefur verið á fárra vitorði, annað staðfestir það sem áður voru uppi getgátur um. Nefni ég hér nokkur dæmi.

Um dómgreindarskort

Í fyrsta lagi fæst staðfesting á því hve mikið hefur vantað upp á dómgreind útrásarvíkinga. Farið er ítarlega yfir tilraunir erlendra aðila til þess að fá íslensku fjármálafyrirtækin til að rifa seglin, til dæmis vildu bresk yfirvöld að vextir á innlánsreikningum yrðu lækkaðir og þannig dregið úr ásókninni inn á bankamarkaði án þess að traustur bakhjarl væri fyrir hendi. Margoft var reynt að koma varnaðarorðum á framfæri við íslensku fjármálamennina og íslensk stjórnvöld án þess að jákvæð viðbrögð fengjust. Algerlega virtist slökkt á öllum perum hjá ríkisstjórn landsins sem lét reka á reiðanum, og að því leyti sem hún lét til sín taka, var það engan veginn til góðs.
Í bókinni kemur vel fram hve botnlaus dómgreindarskorur íslenskra stjórnvalda var. För þeirra Geirs H. Hararde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til Washington og Kaupmannahafnar í slagtogi með þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Sigurði Einarssyni í mars 2008 til að tala máli íslenska bankakerfisins er versta dæmið þar um. Áður hafði Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, farið víða með fjármálafurstum svo sem sjá má á heimasíðu forsæitsráðuneytisins, ef vel er að gáð. Þar eru fréttir og þar eru ljósmyndir.
Sem áður segir hefði ég búist við að Styrmir gengi lengra í að benda á brotalamir hjá Fjármálaeftirlitinu; að það hefði verið eins paragrafs virði að benda á að sjálfur stjórnarformaðurinn, Jón Sigurðsson, var í auglýsingabæklingum, sem dreift var í Hollandi, til að segja væntanlegum viðskiptavinum hve traust Icesave lánin væru! Eflaust var þetta að einhverju leyti spurning um óskhyggju ráðamanna. Minnist ég þess að ræða við Geir H. Haarde sumarið 2008 þar sem hann nefndi að mögulegt væri að sá tími kynni að renna upp að mynda þyrfti þjóðstjórn í landinu, svo alvarlegar blikur væru á lofti - hann ætlaði þó að vona allt hið besta.
Minnir mig að þetta hafi verið um svipað leyti og ég kom á fund Geirs með sendinefnd breskra þingmanna - vina Íslands. Ég annaðist milligöngu um komu þeirra, sá um að þeir hittu íslenska ráðamenn. Þarna voru innanbúðarmenn í breskri pólitík og stjórnsýslu, menn áhugasamir um að hjálpa okkur og veita okkur ráðgjöf. Það bíður seinni tíma að tíunda það ótrúlega meðvitundarleysi sem íslensk stjórnvöld hafa - allt fram á þennan dag - sýnt við að virkja tengsl af þessu tagi. Engin alvöru tilraun hefur verið gerð til að notfæra þá velvild sem er til staðar gagnvart Íslandi. Ég hef átt þess kost að tala máli Íslands á fundum og ráðstefnum á vegum verkalýðshreyfingarinnar og eftir afsögn mína sem ráðherra í fjölmiðlum víða um heim. Hef ég orðið þess var að andrúmsloftið hefur alltaf lagast okkur í hag við að skýra málin.

Réttmæt gagnrýni

Það er hárrétt gagnrýni sem fram kemur hjá Styrmi Gunnarssyni  á fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnir að þær hafa skilgreint deilurnar um Icesave sem bankatæknilegt mál og að því leyti sem málið hefur borið á góma í pólitískum samskiptum, hefur verið hvíslast á um það í bakherbergjum en með slíkum vinnubrögðum er okkar málstaður dauðadæmdur, einfaldlega vegna þess að um málið er tekist á forsendum valdastjórnmála. Völdin og ofbeldið sem Íslendingar hafa verið beittir hefðu aldrei þolað dagsljósið. Þetta er mergurinn málsins sem íslensk stjórnvöld hafa ekki skilið. Það gera hins vegar andstæðingar okkar enda eru það þeir sem krefjast leyndar. Og við hlýðum! Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur á Norðurlöndum hefði aldrei liðið ríkisstjórnum sínum að koma fram gagnvart Íslandi eins og þær hafa gert - sem handbendi lánadrottna okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins -  ef framkomu þeirra hefði verið gerð skil í fjölmiðlum.

Samantekin ráð gegn Íslandi

Í  bók Styrmis koma fram upplýsingar sem sýna svart á hvítu fram á hve samansúrraður umheimurinn hefur verið gegn Íslandi og á hvern hátt einstök ríki beittu sér. Þar hefur AGS gegnt hlutverki lögregluþjónsins sem fyrst þurfti að góma sökudólginn sem og hann gerði. "I got them" segir Styrmir að hann hafi heimildir um að fulltrúi AGS hafi sagt eftir fund með Geir H. Haarde þar sem Íslendingar féllust á að hlíta ráðgjöf sjóðsins (bls 71). Fróðlegt þótti mér að lesa um það hvernig það gekk fyrir sig að þröngva Íslendingum undir AGS, hvern þátt lánadrottnar okkar áttu í því, hver aðkoma Bandaríkjastjórnar var (bls. 55 og 102) og hvernig Timothy Geitner, núverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, þáverandi stjórnarmaður í bandaríska seðlabankanum, hefði sagt að með aðkomu AGS væri Íslendingum boðið upp á dauðakossinn, "kiss of death" (bls.51). Um hlut Norðurlandanna hefur mér lengi verið kunnugt og oft furðað mig á tvískinnungi þeirra gagnvart okkur. Þá er umhugsunarefni hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn söðlar um í afstöðunni til Íslands, áður stórhrifinn af öllu því sem tengdist Íslandi - "öfundsverðar framtíðarhorfur" (bls 50) hét það meðan allt lék í lyndi, þar til nú, að okkur er gert að lúta í duftið. Sannast sagna kom mér á óvart að heyra að jafnvel Svíar hafi barið einkavæðingarbumbuna gagnvart Íslandi (sbr. kröfu sænska seðlabankastjórans um markaðsvæðingu Íbúðalánasjóðs sem skilyrði fyrir sænsku láni í maí 2008 (bls. 37).
Hitt kemur mér síður á óvart, en gott að fá handfasta staðfestingu á, hve mjög íslenski fjármálageirinn hvatti til frekari stóriðju í landinu. Með Bakka og Helguvík myndu "dollarar streyma inn í landið", sögðu þeir Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason bankastjórar Landsbanakans vorið 2008 (bls 27). Málefnaleg rök? Jú, ef það er málefnalegt að leysa lausafjárvanda banka með þessum hætti.

Hvers vegna - vegna þess

Í upphafi bókarinnar segir Styrmir að hún fjalli um "ástæður fyrir hruninu, innbyggða veikleika samfélags okkar og hugsanlega leið út úr þeim ógöngum, sem þjóðin hefur ratað í." Síðar gerir hann tilraun til að greina orsakir bankahrunsins sem hann telur liggja "í atburðum á alþjóðavettvangi, sem við Íslendingar höfðum engin áhrif á, í ákvörðunum, sem teknar voru í íslenzku viðskiptalífi innan og utan bankanna, í aðgerðaleysi stjórnvalda og eftirlitsstofnana, sofandahætti stjórnmálamanna og fjölmiðla og djúpstæðum meinsemdum, sem eru innbyggðar í þjóðfélagsgerð okkar. Þegar áhrif og afleiðingar þessarar margháttuðu atburðarásar heima og erlendis og aldagamlir veikleikar samfélagsins komu saman í einn punkt á haustmánuðum 2008 varð hrun."
Í lok bókarinnar gerir Styrmir athyglisverða tilraun til að rekja tengsl kvótakerfisins, einkavæðingarinnar og sérkenna á íslensku samfélagi sem vikið er að áður.
Styrmir Gunnarsson hvetur til róttæks uppskurðar í stjórnmálum og víkur að ýmsum grundvallaratriðum sem er fróðlegt að heyra frá yfirlýstum og staðföstum hægri manni eins og honum. Hann vill standa vörð um auðlindir þjóðarinnar - orkuauðlindirnar þar með taldar. Í andheitri málafylgju sinni stendur Styrmir hér engum sósíalista að baki!
Hann vill gera þjóðfélagið opnara og lýðræðislegra og tek ég heilshugar undir með honum að leyndin sem hvílt hefur yfir Icesave umfjölluninni og öll meðhöndlun núverandi ríkisstjórnar á því máli er ámælisverð og ekki í nokkru samræmi við vinnubrögð sem eiga að tíðkast í lýðræðisþjóðfélagi.
Þegar Styrmir Gunnarsson tekur ofan flokkspólitísku gleraugun er hann bestur, eins góður og hann er slæmur þegar hann hefur þau á nefinu,  eða hvernig er hægt að ætlast til að eftirfarandi sé tekið alvarlega?: "Segja má, að kjarninn í þeirri hugmyndafræði, sem Sjálfstæðisflokkur Davíðs Oddssonar byggði á, hafi verið að draga úr flokksræðinu og minnka völd stjórnmálamanna" (bls.180).
Þetta kann að vera hugsjón í þeim anda sem öll valdakerfi tefla stundum fram. En illa passar þetta við veruleikann. Það þarf talsvert flókna umgjörð utan um þá menn sem í smæð sinni, áfergju, og heimóttarskap misnota það sem okkur er öllum kærast, frelsið. Hagsmunafélag íslenska valdakerfisins, kerfisins sem Styrmir gagnrýnir nú, lætur sig litlu varða frelsi allra. Hugmyndafræðin sem fylgt var og virðist ekki á undanhaldi felur í sér þá hugsun að frelsi sem gagnast tilteknum, handföstum, hagsmunum sé gott. Frelsi fjöldans er hins vegar hugsjón, inntakslaus gangi hún gegn hagsmunum valdakerfisins. Þeir sem bera eiga uppi hugsjónina um hið frjálsa samfélag bera hana bara fyrir sig!
Og hvernig rímar það við veruleikann að Sjálfstæðisflokkurinn og talsmenn hans óskapist út í sofandi stjórnsýslu og sofandi fjölmiðla? Hvað gerðist þegar stjórnsýslustofnanir gagnrýndu ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins? Eigum við að óska eftir greinargerð frá Þjóðhagsstofnun sálugri eða biðja Stefán Ólafsson, prófessor að segja reynslusögur. Eða þurfum við að taka saman hvernig beint og óbeint var grafið undan Ríkisútvarpinu, og það sem ljótara var, tilteknum starfsmönnum sem gátu ekki borið hönd fyrir höfuð sér? Þarf að rifja upp mannasiði valdsins gagnvart fjölmiðlamönnum?

Frjáls Styrmir?

Þá vil ég vera Styrmi ósammála um það að Íslendingar hafi ekkert upp á að bjóða á alþjóðavettvangi eftir að við hættum að gegna hlutverki í Köldu sytríði stórveldanna í austri og vestri (bls.105). Þessi yfirlýsing rímar vel við gamla Morgunblaðsritstjórann fyrr á tíð en  illa við húmanistann Styrmi Gunnarsson sem einnig var ritstjóri. Framlag einstaklinga og þjóða fer ekki einvörðungu eftir stærð og völdum heldur því sem þær hafa fram að færa. Svíþjóð var þannig móralskt stórveldi í tíð Olofs Palme, nokkuð sem Svíar sýta nú margir eftir að þjóðin lagðist undir samræmingarstraujárn Evrópusambandsins. Þar eru Svíar vissulega stórir og öflugir en áhrifalitlir. Íslendingar mega aldrei temja sér þá hugsun örþjóðarinnar sem Styrmir er hér að hvetja til. Við eigum vissulega að vera raunsæ á okkar stöðu en ætíð stór í andanum. Það er ekki fjöldinn sem gerir hugsjónirnar stórar. Hugsjónin um frelsið er í okkur og það - frelsið - gerir okkur sterk sem þjóð. Völd Olofs Palmes voru hverfandi samanborið við völd Johnsons, en hann var frjálsari og óttaðist ekki, þorði að hafa sína eigin skoðun.
Þrátt fyrir gagnrýni mína þykir mér mikill fengur að bók Styrmis. Hún upplýsir og er sem fersk hvatning til uppstokkunar og endurmats.
Styrmir Gunnarsson hefur annað hvort misst völdin eða afsalað sér völdum - hinum formlegu völdum. Getur verið að með því hafi hann öðlast frelsi? Hver getur talað fyrir beinu lýðræði, gagnsæju þjóðfélagi, að allt sé alltaf uppi á borði? Svarið er augljóst. Það gerir bara sá sem hefur engu að tapa. Það gerir sá sem þarf ekki lengur að taka tillit til valdakerfis sem byggir fremur á auði en upplýsingu og viti. Bók Styrmis er vonandi staðfesting á því að hann sé genginn úr því bjargi. Óttalaus maður er frjáls.

Ögmundur Jónasson