FRÍKIRKJUVEGUR 11 OG AUÐMANNAVÆÐINGIN
Þegar á 19. öldinni voru sósíalistar og anarkistar orðnir vongóðir um að okkur myndi takast að færa út landamæri lýðræðisins (í orðsins fyllstu merkingu) . Dæmi sem þau gjarnan tóku voru almenningsgarðar og almenningssöfn, þjóðminjasöfnin og listasöfnin - söfnin og garðarnir sem voru öllum opnir án aðgangseyris. Þetta var rými okkur öllum opið. Þessi hugsun hefur verið á undanhaldi undanfarin ár. Þar til nú - fulltrúar VG þekkja þessa hugsun, hún er þeim greinilega eðlislæg. Þegar Íhaldið í Reykjavík leggst á hnén og afhendir peningafólki, af undirgefni, Fríkirkjuveg 11, ásamt lóð og umhverfi, þá rís Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, upp og mótmælir. Hann er ekki lengur einn. Fjöldi fólks er honum samstiga, reisir upp fána í baráttu sem ekki er séð fyrir endann á.
Fyrir mitt leyti segi ég: Haf þú þökk Þorleifur. Ég styð þig í slagnum gegn auðmannavæðingunni. Þín barátta er lýðræðisbarátta og jafnframt barátta gegn valdi auðsins; auðvaldinu. Látum ekki allt verða falt!
Hér er yfirlýsing Þorleifs Gunnlaugssonar og að neðan bókun borgarfulltrúans í borgarráði:
Vegna umfjöllunar fjölmiðla um Fríkirkjuveg 11 í vil ég koma eftirfarandi á framfæri
- Ekki er búið að ganga frá sölu á Fríkirkjuvegi 11. Það verður í fyrsta lagi gert á fundi borgarstjórnar 6. maí nk. Þar munu 15 borgarfulltrúar taka afstöðu til kaupsamningsins, þar á meðal borgarstjóri en hann hefur ekki atkvæðisrétt í borgarráði.
- Slíkir meinbugir voru á gögnum sem lögð voru fyrir borgaráð í gær að ætla má að borgarráðsfulltrúum hafi verið gert ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun og af yfirlýsingum borgarstjóra má ætla að hann hafi verið blekktur.
- Í gögnunum er mikið misræmi á milli texta og teikninga sem eru þó hluti af samningnum. Þar er m.a. verið að hundsa nauðsynlega deiliskipulagsvinnu vegna hverfisverndar, en hún myndi leiða til lögboðinnar grenndarkynningar og auglýsingar þar sem allur almenningur fengi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Lýðræðisleg vinnubrögð eru því virt að vettugi. Í kaupsamningsdrögum er ekki tekin afstaða til fornminja á svæðinu sem kaupandi hyggst skemma með vitund borgarinnar sbr. teikningar sem fylgdu.
- Borgarstjóri lætur hafa eftir sér í ríkisútvarpinu í gær að ekki sé hægt að hætta við söluna þar sem „bindandi samningur hafi verið kominn á". Sé svo, þá á það aðeins við um húsið og 900 m² lóð sem auglýst var til sölu. Á sínum tíma ákvað borgarstjórn eftir miklar umræður að bjóða þetta út og ekkert annað.
- Eftir stendur að í drögum að kaupsamningi hefur verið bætt við 750 m² leigulóð og heimilaðar margháttaðar breytingar á almenningsgarðinum utan lóðarmarka auk þess sem kaupandi fær neitunarvald gagnvart frekari breytingum eftir það.
- Tillögu VG í borgarstjórn 15. apríl s.l. um að leitað yrði leiða til að afturkalla söluna á Fríkirkjuvegi 11 var vísað frá.
- Á næsta borgarstjórnarfundi 6. maí munu fulltúar VG leggja til að kaupanda hússins verði ekki selt annað en það sem auglýst var til sölu, það er fasteignin að Fríkirkjuvegi 11 og 900 m² lóð.
- Það er með ólíkindum að meirihluti borgarráðs skuli hafa fyrir sitt leyti samþykkt þennan meingallaða samning og lotið þannig ægivaldi fjármagnsins. Það verður hinsvegar borgarstjórn sem tekur endanlega ákvörðun.
Bókun ÞG: Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði telur fráleitt að undirrita samning þar sem Reykjavíkurborg afsalar sér í raun forræði yfir Hallargarðinum öllum og afhendir þar að auki einkaaðilum lóð sem börn og ungmenni hafa nýtt sér til leiks um áraraðir. Garðurinn og gerðið á bak við húsið er í eigu almennings og borgaryfirvöld eiga að hafa fullan og óskoraðan rétt til að sinna honum eins og öðrum opnum svæðum borgarinnar án íhlutunar einkaaðila. Það er óskiljanlegt að meirhluti borgarráðs kjósi að taka þessa ákvörðun í ljósi þess að hún byggir á óskýrum teikningum, ósamræmi á milli teikninga og texta og óljósu orðalagi um upprunalega mynd garðsins. Af teikningunni má þó ráða að ætlunin er að rjúfa skarð í veggi sem njóta fornleifaverndar og er það með eindæmum að ekki skuli standa til þegar um opinberan aðila er að ræða að kveða á um slíkt í kaupsamningi eða afsali. Ekki hefur verið leitað umsagnar Húsafriðunar ríkisins þó teikningarnar gefi það í skin að færa eigi til tröppur og fleira sem sem telst til næsta umhverfis friðaðs mannvirkis í opinberri eigu og án raunverulegs samráðs er ætlunin að rústa höfundarverki Jóns H. Björnssonar landslagarkitekts sem hannaði Hallargarðinn. Þá vekur það furðu að ekki skuli vera ætlunin að fram fari samráð við íbúa svæðisins og ekki liggi fyrir lóðaleigusamningur. Vinstri græn lögðust gegn sölu hússins á sínum tíma en hér tekur steininn úr þegar auðmenn fá slík forréttindi til afnota. Borgarfulltrúar hafa nú í vetur ítrekað verið minntir á mikilvægi þess að gæta vel að almannahagsmunum þegar ásælni einkaaðila verður sem áköfust. Meðal annars hefur umboðsmaður Alþingis spurt alvarlegra og gagnrýninna spurninga um ráðstöfun á opinberum eigum sem fulltrúum meirihlutans væri hollt að hafa í huga. Það er skylda kjörinna fulltrúa að gæta hagsmuna almennings en ekki sérhagsmuna einstaklinga, sama hvað þeir heita og sama hvað þeir eru auðugir. Til þess vorum við kosin og þar liggur ábyrgð okkar. Það vekur sérstaka furðu að borgarstjóri Ólafur F. Magnússon sem meira að segja var andvígur sölu hússins á sínum tíma skuli nú tala manna ákafastur fyrir því að afsala borginni mun meiru af þessu fallega útivisarsvæði borgarbúa og leggjast þar með flatur fyrir auðmönnum og fótum troða umhverfis- og almannahagsmuni, þvert á fyrri yfirlýsingar.