Fara í efni

Friðargæslan í Kabúl: Göfugt starf eða hreinsunardeild Bandaríkjahers?

Bandaríska stórblaðið New York Times fjallar um íslensku Friðargæsluna í Kabúl í Afganistan og þær umræður sem urðu hér á landi í kjölfar þess að íslenskir gæsluliðar lentu í lífsháska í Kjúklingastræti – Chicken Street – þegar maður sprengdi sig til bana í grennd við þá. Lítil afgönsk stúlka og bandarískur túlkur létu lífið. Í umfjöllun New York Times er rætt við Stefán Pálsson, formann Herstöðvaandstæðinga, sem segir eldri kynslóðina á Íslandi hafa verið stolta yfir því að íslendingar hefðu ekki her og brygði nú í brún við að sjá vopnaða Íslendinga á erlendri grundu. Þá er rætt við Illuga Gunnarsson, aðstoðarmann utanríkisráðherra, sem segir af og frá að hinar vopnuðu sveitir séu hermenn og Einar K. Guðfinnsson, formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem segir Íslendinga vinna "göfugt starf" við uppbyggingu í Afganistan eftir að "hryðjuverkamönnum" hafi verið steypt þar af stóli. Jón Hákon Magnússon, fjölmiðlaráðgjafi, og einn helsti talsmaður hér á landi um vestræna samvinnu um langt skeið, segir Íslendinga án efa hafa lært sína lexíu af fyrrnefndum atburði, en því verði ekki á móti mælt að Íslendingar séu "saklausir" í þessum efnum. Þá er vísað í ummæli mín þess efnis að Íslendingar eigi að láta gott af sér leiða annars staðar en þar sem Bandaríkjaher hafi verið beitt: Íslendingar eigi ekki að vera "hreinsunardeild" fyrir Bandaríkjaher. (Greinin í New York Times er hér)

Illa farið með landann

Mín skoðun er sú að illa sé farið með okkar prýðilega mannskap sem starfandi er í íslensku Friðargæslunni að fá nær eingöngu verkefni sem tengjast hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna. Undantekning á þessu er friðargæslustarfið á Sri Lanka. Um allan heim er þörf á hjálparsveitum. Við eigum að forðast að láta Bandaríkjastjórn nota okkur í tilraunum sínum til að sveipa hernaðarofbeldi sitt lögmætu yfirbragði með því að fá fjölþjóðlegar sveitir með okkar þátttöku til að hreinsa upp eftir sig.
Nú er mikið rætt um uppbyggingarstarfið í Írak. Hvernig skyldi standa á því að eins illa er komið fyrir Írökum og raun ber vitni? Ekki verður skuldinni einvörðungu skellt á einræðisstjórn Saddams Husseins. Gæti hluti skýringarinnar verið sá að í rúman áratug bjuggu Írakar við viðskiptabann, fengu aðeins að selja brot af olíu sinni utanlands, og gátu því aldrei byggt upp samfélagið eftir eyðileggingu stríðsins, fyrst við Írani á níunda áratugnum og síðan Bandaríkjaher í Flóastríði 1991; stríði sem reyndar lauk ekki þá, því allt fram að þeim tíma sem ráðist var inn í landið undir vor 2003, rúmum áratug síðar, voru vikulega gerðar loftárásir á landið.

Bandaríkjastjórn láti Írökum eftir eigin auðævi

Besta hugsanlega efnahagsaðstoðin við Íraka væri að láta þeim sjálfum eftir eigin auðævi; nokkuð sem bandarísku olíufyrirtækin myndu aldrei fallast á enda er ásælni þeirra í olíuauðævi Íraks helsta skýringin á hernámi landsins. Eflaust þykir þó formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins athæfi Bandaríkjamanna í Írak vera sérlega "göfugt" eins og honum reyndar þykir um flestar gjörðir Bush og félaga. Undarleg afstaða, ekki síst í ljósi þess að ég hef grun um að maðurinn sé ekki sem verstur, jafnvel ágætur - inn við beinið.