Fara í efni

FRÉTTAUMFJÖLLUN TIL UMHUGSUNAR

Í gær gerðu einhverjir fjölmiðlar frétt úr því að ég hefði hraðað mér úr Stjórnarráðinu - og gott betur - verið á hlaupum þegar ég yfirgaf húsið eftir ríkisstjórnarfund. Í fréttafrásögnum var látið að því liggja að ég hefði verið á flótta undan fjölmiðlum! Þetta gripu síðan á lofti skríbentar á vefmiðlum á höttum eftir einhverju verulega bitastæðu úr þjóðmálaumræðunni.

Fangelsismálin eru ofarlega á baugi og lái ég ekki fjölmiðlum að búast við fréttum af  þeim eftir hvern ríkisstjórnarfund sem haldinn er enda ríkisstjórnin búin að lýsa því yfir að málið verði frágengið í þessum mánuði. Þarna eru fjölmiðlar að sinna eðlilegum skyldum sínum. Ekki reyndist málið komið á það stig í gær að það yrði afgreitt. Hlaup mín af ríkisstjórnarfundi voru vegna þess að fundurinn hafði dregist á langinn og ég orðinn of seinn annað! Hélt ég sannast sagna að fréttamenn þekktu mig af öðru en að forðast að standa fyrir mínu máli.

Þetta verður mér hins vegar umhugsunarefni um fréttaumfjöllun í landinu.

Þannig reifar Ríkissjónvarpið í gærkvöldi mismunandi áherslur innan ríkisstjórnarinnar vegna þessa máls og kemst að undarlegum niðurstöðum (eða væri nær að segja að tuggið hafi verið upp umhugsunarlaust):
1) Ágreiningur sé um það hvort einkaaðilar reisi fangelsið. Um þetta hefur aldrei verið ágreiningur. Fangelsið fer í útboð og fyrirtæki á markaði teikna (grunnhönnun liggur þegar fyrir)  og reisa bygginguna.
2) Ágreiningur sé um það hvort skattgreiðendur borgi brúsann, sem gæti leitt til skattahækkana eða niðurskurðar. Enginn ágreiningur er um það að skattgreiðendur borgi fangelsið. Að sjálfsögðu munu þeir borga hverja einustu krónu. Eða halda menn að í fangelsi borgi fangar uppihald og húsnæði; eða að einkafyrirtæki ætli að gefa ríkinu húsið og standa straum af kostnaði án endurgjalds?

Um það hefur hins vegar verið deilt hvort heppilegra sé að ríkið reisi fangelsi milliliðalaust eða að einkaaðili reisi það með eigin lántökum og leigi ríkinu síðan afnot af því. Ég hef margoft gert grein fyrir mínum sjónarmiðum opinberlega um þetta efni, sjá t.d. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/i-umbodi-hvers
Þá hafa menn viljað skoða sitthvað sem snýr að staðsetnigu, möguleika á að nýta annað húsnæði sem stendur autt og þar fram eftir götunum. Þetta hefur tafið málið en á sér þessar eðlilegu skýringar sem ég hef margoft gert grein fyrir opinberlega.

Allt þetta hefði ég getað sagt honum Illuga Jökulssyni þegar hann spyr á Eyjunni í gær um ráðherrann á flótta. Reyndar sýnist mér spurningarmekið vera óþarfi því Illugi er að fullyrða en ekki aspyrja. http://blog.eyjan.is/illugi/2011/08/16/radherrar-a-flotta/

Frétt Sjónvarpsins: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547437/2011/08/16/
Eyjan: http://eyjan.is/2011/08/16/ruv-nadi-ekki-tali-af-neinum-radherra-eftir-rikisstjornarfund-ogmundur-yfirgaf-husid-a-hlaupum/ 
rúv: http://www.ruv.is/frett/fangelsi-i-einkaframkvaemd